top of page

Lífsreglur langömmu minnar


Guðfinna Þosteinsdóttir, langamma mín
Guðfinna Þorsteinsdóttir, langamma mín

Þegar ég flutti úr höfuðborginni austur á land með fjölskylduna 2005, gerði ég mér ekki vel grein fyrir hve rætur mínar liggja djúpt á Austurlandi. Þær teygja sig meðal annars um Borgarfjörð eystra, Hérað, í Fljótsdal og til Vopnafjarðar. Ég vissi að langamma mín var frá Teigi í Vopnarfirði og að amma mín, sem duglegust hefur verið að benda mér á rætur mínar hér eystra, fæddist á Brunahvammi, einu heiðarbýlanna efst á Vopnafjarðarheiðinni.


Ég hef hinsvegar alltaf vitað um skáldagenin í fjölskyldunni sem héðan koma og á minningar aftur til barnaskóla þar sem ég gerði tilraunir til að virkja þau, því miður án árangurs. Elskulegir foreldrar mínir hafa alltaf komið þessu að annað veifið og kannski viðhaldið áhuga sem ég gerði lítið með í langan tíma. Það var svo 2011 sem ég kom að útgáfu ljóða ömmu minnar, Guðrúnar Valdimarsdóttur sem ég fór aftur að veita þessu arfi mínum athygli og svo aftur stuttu síðar þegar heildarritsafn langömmu minnar, Guðfinnu Þorsteinsdóttur og æviágrip var gefið út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi 2013.


Langamma mín var fædd 1891 og lést árið sem ég fæddist 1972. Eftir hana liggja þrjár ljóðabækur, sem hlýtur að hafa verið stórvirki á þeim tíma fyrir fólk, svo ekki sé talað um konur, í hennar stöðu. Hún var alþýðuskáld, orti um lífið og tilveruna í sveitarsamfélagi þess tíma, um börnin sín, fjöllin og fegurðina í lífinu. Það hefur verið mér ótrúlega dýrmætt að geta lesið bækur, sögur og ljóð eftir langömmu og um margt hefur það jarðtengt mig og veitt tilvist minni rætur hér á Austurlandi. Fyrir það er ég ævarandi þakklátur.


Ég hef það eftir ömmu minni að hún hafi aldrei haft meira fyrir kveðskapnum en að skrifa það niður sem til hennar kemur. Ég veit þó fyrir nokkuð víst að það hefur hún aldrei þurft að gera, því jafnvel í dag, rétt tæplega tíræð að aldri, man hún enn hvert einasta ljóð sem hún hefur samið. Þó heldur hún því fram að mamma sín (langamma mín) og bróðir sinn, þorsteinn Valdimarsson, hafi verið þau skáldmæltu á heimilinu, svo mikið að hún hafi ekki látið sér detta í hug að yrkja fyrr en á fullorðinsaldri.


Það er hreint ótrúlegt til þess að hugsa að fólk hafi í eina tíð, hreinlega getað hugsað í bundnu máli!


Hélublóm var fyrsta ljóðabók langömmu, gefin út 1937
Hélublóm var fyrsta ljóðabók langömmu, gefin út 1937

Í fyrstu ljóðabók langömmu, Hélublóm sem fyrst var gefin út 1937 er að finna eitt af mínum uppáhalds ljóðum. Ljóðið heitir Lífsreglur og læt ég það fylgja hér:Lífsreglur.


Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því að þér á herðar

þyngri byrði ei varpað er

en þú hefur afl að bera.

Orka blundar næg í þér.

---

Grafðu jafnan sárar sorgir

sálar þinnar djúpi í.

Þótt þér bregðist besta vonin

brátt mun lifna önnur ný.

Reyndu svo að henni að hlynna,

hún þó svífi djarft og hátt.

Segðu aldrei: „Vonlaus vinna!“

Von um sigur ljær þér mátt.

---

Dæmdu vægt, þótt vegfarandi

villtur hlaupi gönguskeið.

Réttu hönd sem hollur vinur,

honum beindu á rétta leið.

Seinna, þegar þér við fætur

þéttast mótgangsélið fer,

mænir þú til leiðarljóssins,

ljóss, sem einhver réttir þér.

---

Dæmdu vægt um veikan bróðir

veraldar í ölduglaum

þótt hans viljaþrek sé lamað,

þótt hann hrekist fyrir straum.

Sálarstríð hans þú ei þekkir,

þér ei veist hvað mæta kann

þótt þú fastar þykist standa;

þú er veikur eins og hann.

---

Fyrr en harða fellir dóma

fara skaltu´ í sjálfs þín barm.

Margur dregst með djúpar undir;

dylur margur sáran harm.

Dæmdu vægt þíns bróðir bresti;

breyzkum verður sitthvað á.

Mannúðlega´ og milda dóma

muntu sjálfur kjósa að fá.

---

Þerrðu kinnar þess er grætur.

Þvoðu kaun hins særða manns.

Sendu inn í sérhvert hjarta

sólargeisla kærleikans.

Vertu sanngjarn. Vertu mildur.

Vægðu þeim sem mót þér braut.

Bið þinn Guð um hreinna hjarta,

hjálp í lífsins vanda og þraut.

---

Guðfinna Þorsteinsdóttir


 

Sólargeisli kærleikans


Hluti ljóðsins hefur fengið sjálfstæða vængi undir heitinu Sólargeisli kærleikans. En þá er búið að raða upp á nýtt nokkrum hendingum úr ljóðinu og meðal annars gefið út sem sönglag, sem margir þekkja í útsetningu fyrir kór eða þrísöng. Þann texta hef ég líka oft séð svífa um á samfélagsmiðlum þar sem undir stendur að höfundur sé ókunnur, sem vonandi leiðréttist einhvern daginn, en boðskapurinn er vissulega tímalaus.


 

754 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page