top of page
Writer's pictureUnnar Erlingsson

Hurðaður bíll og heiðarlegt fólk

Það var á bóndadaginn sem ég lagði fjölskyldubifreiðinni fyrir framan Gistihúsið á Egilsstöðum og gekk á fund hóps vina og kunninga til málsverðar í hádeginu. Það er orðin nokkurra ára hefð á þessum degi að hittast og borða saman, fá sér kannski einn drykk eða tvo og hefja þarna undirbúning fyrir kvöldið. Fyrir flesta er þetta nefnilega gert í lok vinnudags, þó snemmt sé, því á þessum degi er Þorrablót okkar Egilsstaðabúa og það er fyrir okkur félagana sem þarna hittumst sannkallaður hátíðisdagur.

Þegar heim var komið, átti ég stutt samtal við Ölduna mína, lét henni eftir bílinn og gekk svo yfir götuna til Halla vinar míns þar sem til stóð að halda undirbúningi áfram fyrir skemmtun kvöldsins. Þar var þegar kominn svolítill hópur af fólki, búið að setja veitingar á borð og opna nokkra bjóra til að liðka raddböndin og hláturtaugarnar sem án efa yrðu teygð og þanin fram eftir degi og langt fram á kvöld.


Um miðjan daginn var mér litið á snjalltækið í vasa mínum og sá að einhver hafði verið að reyna að ná í mig án þess að ég hafði heyrt hringingu. Þar sem ég kannaðist ekki við númerin lét ég sjallt tækið leita uppruna þeirra og komst að því að annað var frá Lögreglunni og hitt frá Neyðarlínunni. Eins og gefur að skilja, varð ég forvitinn en ólíklegt þótti mér að árangursríkt væri að hringja til baka og engin skilaboð höfðu verið skilin eftir. Þar sem ég sat bókstaflega til borðs með einum fulltrúa lögreglunnar og öðrum í forsvari slökkviliðsins bar ég þetta undir þau og við sammældumst um að þetta hlytu að vera einhver mistök. Ég lét þar við sitja og hélt áfram að að njóta skemmtilegs félagsskapar og góðra veitinga.


Það var komið undir kvöld þegar ég kom heim og ég sagði Öldu frá viðburðum dagsins. Sagan um torkennilegu símhringingarnar báru þar ekki hæst, en Alda hafði lent í sínu ævintýri þegar hún hafði gert sér ferð í nýlendurvöruverslun bæjarins að sækja nokkrar nauðsynjar. Þar hafði nefnilega fokið upp hurð nærliggjandi bíls og dældað hliðina á fjölskyldubifreið heimilisins. Ökumaður og eigandi bílsins við hlið okkar varð miður sín. Það var hvasst og skuggsýnt, tjónið ekki mjög augljóst, svo Alda fékk nafn og símanúmer auk einlægrar afsökunarbeiðni þess sem tjóninu olli. Það skyldi skoðað við betri aðstæður og ákvörðun um framhaldið tekin í samræmi við það sem koma skyldi í ljós.


Kvöldið leið og reyndar laugardagurinn líka án þess að tjónið væri tekið sérstaklega út. Það var allavega ekki stærra en svo að á þessu myndi liggja og fátt hægt að gera um helgina hvort sem var. Á sunnudagsmorgunin hringdi svo síminn minn aftur og birtist þar aftur númer sem ég kannaðist við og snjallt tækið tilkynnir mér áður en ég svara að þar er lögreglan að reyna að ná í mig. Kurteis lögreglufulltrúinn segir mér í stuttu máli að á föstudeginum hafði kona hring og tilkynnt tjón fyrir utan Gistihúsið. Að hurð á bíl hennar hefði fokið upp og gert dæld á hægri framhurð á næsta bíl og gaf upp númerið á bifreið heimilisins. Ég tók niður upplýsingar og þakkaði kærlega fyrir. Hafði núna tvöfalda ástæðu til að skoða meintar skemmdir á fararskjóta fjölskyldunnar.


Hversu miklar líkur eru á því að vera hurðaður tvisvar sinnum sama daginn á Egilsstöðum og ætli það sé víða að jafn oft skuli fólk gangast strax við óhappinu og leggja á sig krók til að koma upplýsingum á framfæri um atvikið? Auðvitað veit ég ekki svörin við því. Finnst ólíklegt að svona nokkuð gerist oft í smábæ á borð við Egilsstaði, jafnvel í höfuðborginni, en langar auðvitað að halda að allir myndu láta vita af tjóninu. Tilfynningin fyrir þeim hluta er hins vegar frekar lituð af fréttum og fésbókarpóstum um hið gagnstæða og þess vegna sit ég hér og skrifa þessar línur, þakklátur fyrir heiðarlegt fólk og gott samfélag þar sem við búum.


158 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page