top of page

Afmælisdagur og heimsmeistaratitill

Ég er ekki alveg viss um hve oft ég hef sótt boltann í eigið mark, en það má færa góð rök fyrir því að í dag hafi mér tekist með hjálp og stuðningi þeirra sem hófu þennan leik með mér, skorað fimmtíu og einu sinni. Sum markanna hef ég gert með þrumufleygum langt utan af velli, nokkur í erfiðri stöðu úr horninu, einhver með baráttu og gegnumbrotum, nokkur aðþrengdur af línunni eftir einhverja snilldarsendingar liðsfélaganna, fá ef nokkur hef ég gert sem leiksjórnandi eða upp á mitt einsdæmi. Ég veit reyndar ekki hvernig á að vinna þennan leik, nema að koma standandi niður og brosandi eftir hvert mark. Og það sem er líklega mikilvægara er að gera sér grein fyrir að enginn sigur verður unnin án þeirra sem leika með okkur. Án þeirra væri enginn leikur, enginn sigur, engin fögnuður.


Það var með nokkrum fyrirvara í ár að ég horfði til hátíðisdagsins í dag, afmælisdagsins. Ég hef reyndar hálf skammast mín fyrir það hve lítið afmælisbarn ég er, hélt lítið, illa og sjaldan upp á afmælið mitt framan af aldri, það var ekki fyrr en Aldan mín gekk í fang mér að ég sá villu míns vegar og fór að veita þessum tímamótum meiri athygli, sem hún hefur þó að mestu leikstýrt og undirbúið síðan þá, svo bragur er af.

Í þetta skiptið var það hinsvegar handboltalandsliðið okkar sem setti fókus á þennan dag framyfir aðra. Hann bar nefnilega upp á sama dag og strákarnir okkar yrðu að leika til úrslita á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð og Póllandi. Nú myndi ég hafa tvöfalda ástæðu til að halda upp á daginn og vonandi að kveldi, bæði með veislu og heimsmeistaratitli.

Þið getið því ímyndað ykkur svekkið þegar "við strákarnir" á 10 mínútna kafla í leik við Ungverja, gerðum nærri út um vonir okkar um veru í úrslitum keppninnar og uppvakningu Svíagrílunnar alræmdu sem endanlega gerði út um vonir okkar til að halda daginn í dag jafn hátíðlegan og efni gaf tilefni til.

Það var reyndar ekki af þeim sökum sem ekki hefur verið blásið til veislu hér á þessu heimili, eins og undanfarin ár er öllu skipulagi fram í tímann haldið í algeru lágmarki. Tölfræðin mín er í takt við strákanna okkar í landsliðinu, að þó vel gangi eru afskaplega litlar líkur á að ég standi mig þegar á hólminn er komið. Pressan virðist alltaf bera mig ofurliði, ýmist of slappur til að verða til nokkurs gagns eða sleginn út af vegna veikinda (meiðsla), liggjandi í rúminu og bíðandi eftir nýjum degi með sól í haga. Það kemur dagur eftir þennan eins og það kemur ný keppni eftir þessa. Áfram höldum við, bjartsýn um betri árangur, betri heilsu og sigra með nýjum áherslum. Skiptum kannski um þjálfara og lækni eða sjúkraþjálfara.

Mikilvægast er þó að hafa fókus á andlegu heilsunni, að missa ekki móðinn og tapa trúnni á eigin getu. Ég veit eins og strákarnir okkar að við eigum fullt inni. Getum enn bætt okkur og náð árangri sem á eftir að gleðja aðra og sanna fyrir sjálfum okkur að það mikilvægast af öllu var að gefast ekki upp. Að hver misheppnuð tilraun var í raun skref í rétta átt. Í átt að settu marki.

Hjartans þakkir til ykkar allra sem hafið skrifað, sagt eða hugsað eitthvað fallegt til mín á þessum tímamótum í lífi mínu. Sólin er farin að síga á fimmtugasta og fyrsta afmælisdaginn minn og lífið hefur aldrei verið betra og það segi ég af sannfæringu, þrátt fyrir allt sem betur hefði mátt fara. Aldrei hef ég haft jafn margt og marga að vera þakklátur fyrir. Og ég hlakka til þess dags að við getum öll fagnað saman, þó ekki væri nema heimsmeistaratitli í handbolta. Það kemur einn daginn!

Takk fyrir mig ❤️

Áfram Ísland!

64 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page