top of page

Þörfin fyrir þak yfir höfuð

Í vetur þegar ljóst var að frumburðurinn stefndi á nám í Háskóla Íslands var sett full alvara í að skoða húsnæðiskosti á höfuðborgarsvæðinu. Það tók ekki langan tíma að sjá og skilja að miklu mætti til fórna að senda hann ekki á leigumarkaðinn og eins ágætlega og stúdentagarðarnir litu út og væru skaplegri hvað leigu varðar, þá er það lítið annað en gálgafrestur á að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn.Við fjölskyldan höfum notið þess að eiga skuldlausa eign um nokkurt skeið og hefur því fárviðri á fasteignamarkaði og stórsjór í vaxtamálum ekki haft áhrif á rekstur heimilisins annan en hækkandi matvöruverð undanfarin misseri. Ég hef þó alltaf fylgst vel með fjármálum og fasteignamarkaði af gömlum vana og áhuga og gekk meðal annars í Leigjendasamtökin þegar þau voru endurræst fyrir fáeinum misserum. Þar hef ég verið virkur þátttakandi þrátt fyrir að hafa lítilla hagsmuna að gæta á þeim vettvangi, annan en áhuga á heilbrigðum leigumarkaði fyrir næstu kynslóðir. Nokkuð sem aldrei hefur verið til á Íslandi að mínu viti.


En það er eins með þetta og svo margt annað í lífinu, við látum okkur málefni almennt lítið varða fyrr en þau snerta okkur sjálf og skyndilega vorum við á kafi uppfyrir axlir í samfélagsumræðu um leigu- og fasteignaverð og ótrúlega háan vaxtakostnað sem á sér fáar ef nokkrar hliðstæður í okkar heimshluta. Skyndilega var valið ekki bara leiga eða eiga heldur virtist það sem við almennt lítum á sem sjálfsagðan hluta lífsins og jafnvel mannréttindi að hafa aðgang að öruggu húsaskjóli spurning upp á líf eða leigu.Það var hjákátlegt að sjá hvaða greiðslumat námsmaður fær til húsnæðiskaupa. Auðvitað fékk Davíð bara hreint nei við umsókn um lán vegna þess að námslán, auk mögulegra tekna að skerðingarmörkum, duga einfaldlega ekki fyrir opinberu framfærsluviðmiði. Það þurfti því foreldrana báða til að gangast í ábyrgð fyrir láninu, enda augljóst að miðað við aðstæður þá munum við þurfa að standa undir stærstum hluta greiðslu þess á meðan náminu stendur og tekjur námsmannsins eru takmarkaðar.


Talandi um greiðslubyrði. Ég er búinn að missa töluna á því hversu oft vextir hafa hækkað síðan við byrjuðum að skoða íbúðir og reikna afborganir af væntanlegu láni, í það minnsta hafa vextir tvöfaldast á þessum tíma. Ef aðeins er litið á síðustu tveggja vaxtaákvarðana Seðlabankans sem komu til á meðan kaupferlinu stóð, þá hafa vextir hækkað um 2,25% sem hækkað hefur greiðslubyrði af láninu, sem við höfum ekki einu sinni fengið afhent, um 75 þúsund krónur á mánuði. Til að dekkja myndina aðeins, notaði Seðlabankastjóri tilefnið við síðustu hækkun og sagði að líklega væri toppnum ekki náð og boðaði með því enn frekari vaxtahækkanir á næstu mánuðum.


Nú er svo komið að árleg vaxtabyrgði af láninu, eins og það stendur þegar þetta er skrifað, er komin yfir 4.000.000... sagt og skrifað, fjórar milljónir! Það gerir ríflega 330 þúsund krónur af mánaðarlegu ráðstöfunarfé fjölskyldunnar, sem gjald fyrir það eitt að koma agnarsmáu þaki yfir höfuðið á fyrsta barni af þremur. Auðvitað er það fyrir utan greiðslur á höfuðstól lánsins.


Ég tel mér óhætt að segja að fyrir útsjónarsemi okkar hjóna hefur okkur tekist að koma ár okkar vel fyrir borð þrátt fyrir nokkur umtalsvertð fjárhagsleg áföll undanfarinn áratug. Og líklega hafði það líka sitt að segja að við keyptum okkur hús í 630 km fjarlægð frá höfuðborginni. En nú upplifum við, að nauðug, viljug, tökum við á okkur enn eitt áfallið með risastórri skuldbindingu langt inn í framtíðina í von um að tryggja elsta barni okkar aukna von um betri framtíð. Um leið erum við meðvituð að ef ekki verði gerðar breytingar á stjórnarháttum fjármála í landinu gæti þessi skuldbinding teygt sig lengra inn í framtíðina en holt er til að horfa.


Og hver lætur sér detta í hug að gera þetta? Hvað er eiginlega að okkur? Þetta hlýtur að vera einhverskonar sturlun. En jú, svarið við þeirri spurningu er ekki að við séum svona áhættusækin eða illa að okkur í fjármálalæsi. Þetta er íslenska leiðin. Kostirnir eru tveir og hinn er bara enn verri. Svo hlýtur þetta bara að reddast, er það ekki?

104 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page