top of page

Val um búsetu


Val um búsetu og öruggar samgöngur
Val um búsetu og öruggar samgöngur

Það er vissulega val hvers og eins sem býr út á landi að búa einmitt þar. Við höfum, sem betur fer, val um hvar við búum á Íslandi. Öll getum við tæknilega séð, flutt okkur um set og búið þar sem samgöngur eru ásættanlegar og þjónusta til staðar. Það er hins vegar val okkar allra að búið sé um allt land. Búseta, sem víðast um landið er nefnilega gott fyrir alla. Þrír stærstu atvinnuvegir landsins byggja allir á byggð úti á landsbyggðunum. Ferðaþjónusta, sjávarútvegur og stóriðjan.


Þess vegna eru það sameiginlegir hagsmunir okkar allra sem byggja landið okkar að jafna aðgengi að þeim hlutum, afþreyingu og þjónustu sem við eru alla jafna sammála um að allir landsmenn skuli eiga rétt á.


Samgöngur eru lífæð landsbyggðanna, rétt eins og borgarinnar. Allir gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra þegar þeirra nýtur ekki við. Og það er nöturlegt þegar íbúar þessa lands sem lengst frá þjónustukjarna og höfuðborg landsins búa láta heyra í sér um slæmt aðgengi að þjónustu og öðru sem þeir þurfa að sækja langan veg, að þeir fái það í andlitið að búseta sé einfaldega þeirra val.


Ég vona að þetta viðhorf breytist. Það gerist, að því er virðist nokkuð sjálfkrafa hjá þeim sem flytja út á land og búa þar til lengri eða skemmri tíma. En það er líklega gömul saga og ný að erfitt er að setja sig í spor annarra nema prófa að ganga í þau. Með opnara samfélagi og meiri upplýsingum vona ég að fleiri opni augun og styðji bættar samgöngur, hvar sem eftir því er leitað hvort heldur er á landi, í lofti eða á sjó.


Unnar Erlingsson

-brottfluttur höfuðborgarbúi

117 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page