top of page

Þjóðvegurinn til höfuðborgarinnar lokaður


Landsbyggðastrætóinn, tenging margra við nauðsynlega þjónustu höfuðborgarinnar er búinn að halda illa áætlun undanfarið.

Það hafa verið hjartakremjandi sögur af áhrifum tíðra seinkana og niðurfellinga á innanlandsflugi undanfarna mánuði í hópnum Dýrt innanlandflug - þín upplifun á Facebook. Almennt tengjum við flugferðir við ferðalög og frí, svo það er auðvelt að líta léttvægt á að einhver missi af flugi eða komist ekki á áfangastað á réttum tíma. En þessar sögur snúast almennt ekki um það. Oft tengist þetta ferðum til nauðsynlegra heimsókna í heilbrigðisþjónustu landsins sem er auðvitað alvarlegast við svona þjónusturof. En þegar öll dæmin eru tekin saman, þá kemur í ljós hversu ömurlega stöðu fólk er sett í sem þarf og vill geta treyst á þjónustu innanlandsflugsins. Fyrir marga er þetta engu minna mikilvægt en þjóðvegir landsins og vegakerfi. Til að geta sótt vinnu, þjónustu og mikilvæga afþreyingu er ekki aðeins nauðsynlegt að hafa vegi, heldur er viðhald þeirra algert forgangsatriði. Við verðum öll að geta treyst á öruggar samgöngur.

Samkvæmt nýlegri frétt af vef Akureyri.net, þá seinkaði flugi í 410 tilfellum og flug fellt niður 143 sinnum fyrstu sex mánuði ársins til Akureyrar. Ef reiknað er með 60 farþegum að meðaltali í hverju flugi, þá hefur þetta haft áhrif á 33.180 farþega! Vissulega mis mikil og við sem þörfnumst og notum þessa þjónustu reglulega erum ýmsu vön, sýnum þessu að mestu skilning og umburðarlyndi. En það eru mörk fyrir því líka. Af þessu hlýst gríðarlegt tjón fyrir fólk. Það gerir líka fyrirtækjum og sveitarfélögum landsbyggðanna sem lengst frá höfuðborginni búa mikið erfiðar fyrir að halda í fólk og fá við liðs við sig nýtt starfsfólk og íbúa.

Um helgina þurfti að fresta 100 manna veislu á Egilsstöðum, sem tugur fólks var að undirbúa, vegna þess að fimmtungur gesta var væntanlegur með flugi sama dag. Flug þeirra var fellt niður og gestirnir skiluðu sér níu tímum síðar. Þarf að ræða vinnustundirnar sem fóru í súginn, kostnaðinn eða leiðindin og óþægindin fyrir alla hlutaðeigandi?

Í vikunni átti vinur minn mikilvægan fund í Reykjavík vinnu sinnar vegna. Þegar hann var kominn á flugvöllinn fékk hann þær fréttir að vegna seinkunar á fluginu kæmist hann ekki á fundinn. Getum við reiknað hvað svona tilfelli kosta fyrirtækin okkar og samfélag?

Konan mín pantaði fyrir nokkru flug fram og til baka samdægurs til að fara með son okkar til læknis, sem á að vera eftir rúma viku. Er eðlilegt að hún sé reglulega að velta því fyrir sér hvort hún eigi eftir að missa af læknatímanum, eða hvort hún eigi að fórna einum vinnudegi eða tveimur í ferðalagið til að vera örugg um að geta hitt lækni? Og veit einhver hvaða áhrif svona streytuvaldar hafa á fólk ofan á veikindi sem fyrir eru?

Það færi kannski vel á því að leggja til lausnir á þessum vanda en fyrirtækið sem sinnir þessari þjónustu er stærsta fyrirtæki landsins. Með þúsundir starfsmanna, þeirra á meðal sérfræðinga í flugrekstri og tugi nýrra og nýlegra flugvéla sem fljúga um allan heim á hverjum degi. Áður en ég fer að blanda mér í málið og leggja til hvernig best er að vinna vinnuna sína, þá verð ég að trúa að þeir geta gert betur en þetta.


Unnar Erlingsson

Austfirðingur og farþegi

229 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page