top of page

Þegar engin er samkeppnin


Þegar engin er samkeppnin
Þegar engin er samkeppnin

Nokkur orð um samkeppni í innanlandsflugi. Það er engin.


Ástæðurnar eru auðvitað margar, sumir nefna aðstöðumál á Reykjavíkurflugvelli, aðrir gríðarlega fjárfestingu til að koma sér upp flugvélum og starfsfólki og kostnaðinn við að koma sér fyrir á markaði... já markaði. Markaðurinn er ekki stór til að rúma mikla samkeppni, eða stóra fjárfestingu. Ekki síst í ljósi þess að á honum er risi sem getur, ef hann vill, tapað miklu í langan tíma í baráttu sinni við samkeppnina. Sá tími væri auðvitað frábær fyrir okkur notendur þjónustunnar, eins og síðast þegar Íslandsflug gerði eftirminnilega tilraun á samkeppnismarkaði á helstu flugleiðum innanlands. Á þeim tíma var tap flugfélaganna talið langt yfir þúsund milljónir króna í keppni um fáa farþega á litlum markaði. Sá minni varð eðlilega undir og verðið hækkaði að sjálfsögðu aftur í kjölfarið. Ekkert fyrirtæki er rekið lengi með tapi, sama hversu stór þau eru og það eru aðeins notendurnir sem borga þegar upp er staðið.


En talandi um markað, framboð og eftirspurn. Þegar einn aðili stýrir framboði, byggða á eftirspurn, þá er verðið eðlilega alltaf hátt. Og þegar eftirspurnin í samgöngum er fyrirsjáanlega mest, er verðið að sama skapi, fyrirsjáanlega hæst. Því er erfitt að kyngja þegar þörfin er byggð á nauðsyn en ekki vali.


Tilfellið er nefnilega að meirihluti eftirspurnar á innanlandsflugi almennings á landsbyggðinni er byggð á þörf en ekki raunverulegu vali. Hér býr fólk sem nauðsynlega þarf að nýta sér þessa þjónustu vegna þess hvernig við sem samfélag, höfum ákveðið að byggja landið okkar. Þetta er ekki spurning um skemmtiferðir eða að skreppa í sólina vegna þess að tíðin er búin að vera döpur. Heldur spurning um nauðsynlega þjónustu.


Þegar ég bjó í Reykjavík gat ég valið hvort ég heimsótti vini á Egilsstöðum eða í London til að fara á tónleika eða fótboltaleik, og það verður að viðurkennast að ég valdi sjaldan að fara á Egilsstaði. Það kostar mig í dag, meira að ganga niður Laugaveginn en fyrir íbúa Reykjavíkur að fara á Oxfordstræti í London.


Það eru tugir flugfélaga að keppa um að flytja okkur út um allan heim frá suðvestur horni landsins og allir hafa val um hvort þeir eigi að nýta sér þá þjónustu eða ekki. Þannig er því ekki farið hér. Við keppumst við að leita að ódýru fari hjá einu flugfélagi og endum oftar en ekki á að velja að keyra í 18 klukkutíma til að spara okkur krónurnar. Það er vissulega val byggt á markaðsforsendum í innanlandsflugi.


 

En nú er búið að kynna nýja leið sem vonandi mætir þessum samkeppnisskorti og hamlandi háum flugfargjöldum fyrir okkur sem búum lengst frá þjónustukjarna landsins. Leiðin er kölluð skoska leiðin og verður vonandi sú íslenska strax á næsta ári.


Unnar Erlingsson

Austfirðingur

168 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page