top of page

Ég þarf líka að komast til læknis


Innanlandsflug er gríðarlega mikilvægur hluti almenningssamgangna.
Innanlandsflug er gríðarlega mikilvægur hluti almenningssamgangna.

Af augljósum ástæðum getum við ekki boðið sömu þjónustu allstaðar í kringum landið. Þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni, sem flestir telja líklega þá mikilvægustu af grunnþjónustu okkar, þá er það ekki bara óheyrilega dýrt, heldur einnig nærri óframkvæmanlegt að manna sérhæfðar lækna- og sérfræðistöður hringinn í kringum landið.


Þess vegna erum við almennt sammála um mikilvægi þess að byggja upp þessa þjónustu á einum stað í okkar stóra en um leið fámenna landi og eðlilegt hlýtur að teljast að gera það þar sem flestir búa, í höfuðborg landsins.


Sú ákvörðun okkar, má hins vegar ekki þýða að aðgengi þeirra sem lengst búa frá þjónustunni sé skert langt umfram það sem eðlilegt verður að teljast. Þeir fjármunir sem hagræðingin skilar, við það að reka stærstan hluta þjónustunnar á einum stað, hlýtur að mega nota að hluta til að greiða aðgengi þeirra sem lengst þurfa að ferðast til að njóta hennar sem best er kostur.


Og auðvitað er það best gert með bættum samgöngum og endurgreiðslu ferðakostnaðar með einhverjum sanngjörnum leiðum.


Flugfélagið hefur lagt sig fram við að auglýsa góð verð á flugi og margir halda að það sé hægt að fá flugfar allt niður í áttunda þúsund krónur*. En það er eins með þessi flugfargjöld eins og mörg tilboðanna, þau gilda aðeins fyrir ákveðin fjölda sæta á ákveðnum dögum og á ákveðnum tíma dags. Af áralangri reynslu og yfirlegu á vef flugfélagsins, þá er það alger undantekning að raunveruleikinn sé sá að þessi fargjöld séu í boði þegar á þarf að halda og varla nokkurn tíma ef fyrirvarinn er stuttur, sem er veruleikinn í mörgum tilfellum.

Þeir sem benda á að flugfargjaldið sé ekki hátt, eru líklega að miða við almennt flugfargjald sem getur farið upp undir þrjátíu þúsund krónur.* Auðvitað er það óréttlátt þegar fólk þarf að sækja nauðsynlega þjónustu, sem í flestum tilfellum er bara hægt að sækja á höfuðborgarsvæðið. Fyrir meirihluta landsmanna þarf aðeins nokkrar mínútur í bíl til að sækja þjónustu eins og augnlækni eða aðra sérfræðilækna. Eða greiða nokkur hundruð krónur í strætó til að komast á áfangstað.


Ég efast um að einhverjum þyki það eðlilegt gjald að greiða tugi þúsunda fyrir það eitt að komast á staðinn til að sækja sjálfsagða og mikilvæga þjónustu sem við erum flest, ef ekki öll, sammála um að allir eigi að hafa greiðan aðgang að. Enda höfum við öll, hvar sem við búum á landinu lagt okkar að mörkum til að byggja upp þessa þjónustu sem að mestu er staðsett í höfuðborg landsins.


Ég hef verið ötull stuðningsaðli skosku leiðarinnar svokölluðu vegna þess að hún er tilbúin, hefur sannað gildi sitt og er líklega fljótlegasta byggðaaðgerð til að jafna aðgengi að miðlægri og sameiginlegri þjónustu landsins. Að sama skapi er ég sannfærður um að hún verður til þess að gera alla byggðakjarna landsins samkeppnishæfari hvað varðar búsetu og færa líf í uppbyggingu frekari þjónustu, afþreyingar og íbúðarhúsnæðis sem sárlega vantar víða um land.

 

Nú hefur starfshópur Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem skipaður var til að fjalla um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar skilað af sér skýrslu og lokið störfum. Lagt er til að "farmiðar íbúa með lögheimili á tilgreindum svæðum á landsbyggðinni verði niðurgreiddir þar sem íbúar sem ferðast í einkaerindum njóta 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, þó að hámarki fjórar ferðir á hvern einstakling á meðan reynsla er að komast á kerfið."Nú hefur starfshópur Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem skipaður var til að fjalla um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar skilað af sér skýrslu og lokið störfum. Lagt er til að "farmiðar íbúa með lögheimili á tilgreindum svæðum á landsbyggðinni verði niðurgreiddir þar sem íbúar sem ferðast í einkaerindum njóta 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, þó að hámarki fjórar ferðir á hvern einstakling á meðan reynsla er að komast á kerfið."


Nú hafa bæði Samgöngu- og Fjármálaráðherra komið fram í fjölmiðlum og sagst vera fylgjandi þessari niðurstöðu, svo vonandi tekst að finna þessum tillögum stað í fjárlögum næsta árs og niðurgreiðslukerfið sett af stað árið 2020 eins og nefndin leggur til í skýrslunni.


Hér er hlekkur á frétt ráðuneytisins um skýrsluna og þar er einnig að finna hlekk á skýrslu nefndarinnar.


Unnar Erlingsson

Austfirðingur



*Lægsta flugfargjald frá Egilsstöðum til Reykjavikur á vef flugfélagsins þegar þetta er skrifaður kr. 7.680 (fjórtán dögum eftir bókunardag) og fullt fargjald, fríðindasæti kr. 27.085 (hægt að fá samdægurs). Í báðum tilvikum er dýrara að fljúga til baka.

242 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page