Það er svo margt sem meikar sens í heiminum. En um leið meikar ekki sens að nota þetta hugtak. Það er ekki sérstaklega fallegt og hræðilega stolið úr öðru tungumáli, en samt er eins og fólk og þar er ég meðtalinn, festist algerlega í að nota það, einfaldlega vegna þess að okkur dettur ekkert annað í hug í staðinn.
Þetta er eitt þeirra orðasambanda sem ég hef reynt að venja mig af að nota. Finnst þetta bara almennt lýti á annars ágætu málfæri mínu og ein fjölmargra ástæðna þess að ég staldra stundum við og leik mér að því að laga það sem mér finnst aflaga hafa farið í orðfæri mínu. Mér hættir nefnilega mjög oft til að sletta og nota orð úr ensku til að gera mig skiljanlegan. Og fáir gera við það athugasemd, enda oft og iðulega í sömu gryfju fallnir, get ég ímyndað mér.
Ég er meðlimur í bráðsnjöllum hóp á Facebook sem heitir "Það vantar íslenskt orð fyrir..." Þar sem fólk spyr út í eterinn þegar það lendir í vandræðum með íslenskt orð eða orðasamband og aldrei stendur á viðbrögðum. Stundum kemur í ljós að sárlega vantar eitthvað nýtt, ekki síst ef um afmörkuð tækniatriði eða fagmál er að ræða, en oftar en ekki er eitthvað til sem fullnægir alveg þeirri þörf sem reynt er að uppfylla.
Ég bað um tillögur til að aðstoða mig í þessari áráttu minni við að nota "meikar sens" um daginn og örfáum mínútum síðar var listinn af tillögum orðinn langur. Nú veltur það á mér að tileinka mér eitthvað eða jafnvel margt af því sem mun betra verður að teljast en þennan ósóma sem ég hef vanið mig á.
Hér eru tillögurnar sem ég fékk í þeirri röð sem þær bárust.
Það meikar sens:
það stenst skoðun
það er rökrétt
það er vit í
það er skynsamlegt
það hljómar vel
það virðist rökrétt
það getur passað
það fellur vel að
það kemur heim og saman
það liggur í augum uppi
það er skarplega athugað
það er augljóst mál
það er augljóslega
það er lógískt
það gengur upp
það hljómar rétt
það getur passað
það er skiljanleg, skýr og snjöll hugmynd
það er ekki galið
Það kom mér á óvart hvað listinn varð langur á skömmum tíma en allt virtist þetta liggja í augum uppi þegar ég las yfir hann. Það vill nefnilega þannig til að íslenskan hefur svör við því sem við þörfnumst. Það sem mér finnst erfiðast að sætta mig við er hversu oft okkur finnast hlutirnir hljóma betur á ensku en íslensku og hreinlega veljum að nota það sem betur hljómar. Líklega er það einfaldlega vegna þess að við erum ekki nógu dugleg að nota okkar ylhýra til að lýsa því sem við þurfum og gæða þannig tungumál okkar enn frekara lífi. Við hlustum líklega jafn mikið eða meira á ensku talaða en íslensku í þessum stafræna nútíma okkar.
Með þessum orðum er auðvitað og alls ekki ætlunin að gera lítið úr þeim sem sletta eða nota mikið ensk orð til að gera sig skiljanlega. Þá væri ég að gera einmitt það við mig sjálfan. En því oftar sem ég stend mig að því að koma ekki frá mér heillri setningu án þess að þurfa að grípa til enskra hjálpartækja, hefur mér fundist það skemmtileg áskorun að finna út hvað mig vantar til að segja það sem segja þarf á íslensku. Þetta er því vonandi hvatning til þín að gera slíkt hið sama og um leið að hjálpa mér að halda áfram á þeirri braut.
Ég er að reyna að vanda mig. Það meikar sens, eða þú skilur...
Það er skiljanleg, skýr og snjöll hugmynd!
-Unnar
Comments