top of page

Það ánægjulegasta við smíðar


Nýju híbýli álfanna hjá Olgu
Nýju híbýli álfanna hjá Olgu

Lítið smíðaverkefni

Ég tók að mér lítið smíðaverkefni í vetur, að byggja hús fyrir álfana sem búa í garðinum hennar Olgu hér á Egilsstöðum. Olga er gamalt gistihús sem er í eigu vina okkar hjóna og þar sem ég hafði verið með aðstöðu í litlu smíðaverkstæði nokkrar klukkustundir á viku í vetur fannst mér verkefnið tilvalið. Langt síðan ég hef staðið inni á verkstæði eins og því sem ég ólst upp við, greninu hans afa á Selfossi. Þetta er reyndar míní útgáfa af því en vélarnar gera það sama. Hefilbekkur og hamar hafa lítið breyst í 50 ár.


Stöðugt tilhlökkunarefni

Ég er búinn að njóta þessara stunda á smíðaverkstæðinu út í ystu æsar. Ilmurinn sem tekur á móti mér þegar ég opna dyrnar, gamaldags uppáhellinguna á kaffistofunni, gufan í útvarpinu og félagsskapurinn hefur verið frábær. Það leiðist engum við svona iðju. Tíminn hefur hlaupið alla föstudaga fyrir hádegi og ég gat varla beðið eftir næsta föstudegi til að halda áfram með verkefnin sem ég hef valið mér hverju sinni. Augljóslega ekkert gengið hratt fyrir sig enda ekki tilgangurinn, en þeim mun ánægjulegra að búa ekki við pressu um afköst eða útkomu. Þetta var gert á mínum forsendum, fyrir mig, vegna mín.


Afraksturinn

Og viti menn. Ætli afraksturinn hafi ekki bara borið þess merki. Það urðu til fallegri, betur gerðir hlutir fyrir vikið. Pressan á árangur og afköst gera okkur ekki alltaf gott. Keppnin við brauðstritið og Jón í næsta húsi er ekki til að kalla fram það besta í okkur. Mýtan um að pressa sé forsenda árangurs hefur margoft verið afsönnuð, en því miður virðist hún oftar en ekki vera forsenda þess að við komum okkur að verki. Verkefni verða nefnilega aldrei, ég endurtek, aldrei unnin betur undir pressu. Mögulega hraðar og jú, vissulega er raunin sú að mörg hver yrðu aldrei framkvæmd nema vegna pressu, en aldrei eru þau betur unnin í því ástandi.


Það skemmtilegasta við smíðar

Ég hef lengi sagt að smíðar hljóti að vera einhver mest gefandi vinna sem hægt er að hugsa sér. Næstum allt sem smiðir gera er sýnilegt og hefur hagnýtt, áþreifanlegt og augljóst gildi. Ef vel er til verksins unnið, vekur það gjarnan eftirtekt og aðdáun og ber handverksmanninum gott vitni, sem fær örugglega mikið oftar þakkir og lof fyrir gott verk en t.d. þeir sem vinna mest innan í veggjunum svo dæmi sé tekið. Ég hef notið þess alla ævi að vera umlukinn handverki föður míns og reyndar móður líka, þó annað sé.


Það er spenna sem fylgir því að sýna hluti sem þú hefur smíðað og líklega er það skemmtilegasta við ferlið þegar vel tekst til og viðbrögðin eru jákvæð. Svo ekki sé talað um þegar það sem smíðað er kemur að góðum notum, hjálpar öðrum og veitir þeim ánægju.


Það sem raunverulega skiptir máli

Þetta pínulitla smíðaverkefni mitt, sem hefur verið að minna mig á allt þetta sem yljað hefur hjarta mínu undanfarnar vikur hefur líka leitt til annarrar niðurstöðu. Því þrátt fyrir fjölmargar ánægjustundir á smíðaverkstæðinu við að hanna og smíða, drekka kaffi með skemmtilegu fólki og anda að sér bernskuminningum með ilminum af efniviðnum er eitt sem stendur algerlega uppúr. Það eru stundirnar með vini mínum sem ég gerði þetta fyrir. Viðbrögð hans þegar smíðinni var lokið og samverunni þegar við hjálpuðumst að við að klára verkið, setja húsið upp í garðinum, sækja það sem vantaði og ganga frá þegar allt var komið. Samvera, vinátta og sú upplifun að geta hjálpað.


Þegar við gerum það sem við gerum fyrir aðra.



Litli burstabærinn stendur í garðinum hjá Gistihúsi Olgu, Tjarnarbraut 3 á Egilsstöðum.

110 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page