top of page
Writer's pictureUnnar Erlingsson

Stefnum til stjarnanna


Stefnum til stjarnanna.

Hann Máni litli átti sér þann draum heitastan að verða geimfari. Að stíga fæti á tunglið!

Hvað gerum við þegar börnin okkar láta sig dreyma slíka drauma? Klöppum þeim góðlátlega á kollinn og brosum. Hugsum kannski sem svo að það sé hollt fyrir alla að eiga sér draum, vitandi að ólíklegt er að þeir verði nokkurn tíma að veruleika. Reynsla okkar flestra er nefnilega að hlutirnir fara á annan veg en við ætlum okkur og kannski er bara best að halda væntingum hófstilltum svo við verðum síður fyrir vonbrigðum.


Flest reynum við að komast hjá vonbrigðum. Engum finnst gaman að gera mistök. Eðlilega.

En akkúrat þarna verður okkur kannski á, því mistök og vonbrigði geta verið gríðarlega mikilvægt eldsneyti til að koma okkur lengra en okkur flest órar fyrir. Mistök eru nefnilega skref í rétta átt! Og sé hugarfar okkar þannig stillt, eru vonbrigðin þeim kostum gædd að þau geta annað hvort gert okkur betri, eða bitur. Sé rétt á málum haldið, höldum við í það sem það kennir okkur, gleymum hinu og notum niðurstöðuna til að gera okkur betur hæf að takast á við næsta verkefni, næstu áskorun í átt að draumamarkinu. Sagan segir að Thomas Edison hafi gert tíu þúsund tilraunir til að búa til ljósaperuna og eftir honum er haft að honum hafi ekki mistekist svona oft, hann lærði einfaldlega tíu þúsund leiðir sem ekki virkuðu.


En svo er annað sem vert er að minnast á, og það er hlutverk okkar, aðstandenda Mána litla. Draumur hans verður nefnilega aldrei að veruleika án okkar aðstoðar. Og auðvitað getur það hlutverk verið margþætt og snert á stórum og litlum þáttum, en mikilvægast af öllu er að vera til staðar. Leyfa Mána að gera mistök, reka sig á, án þess nokkurn tíma að hann finni annað en stuðning, kærleika og hvatningu til að halda áfram. Segið með mér: "Þú ert frábær", "Ég elska þig" og "Ekki gefast upp". Ef lífið væri bara svo einfalt.


Svo bíðum við í eftirvæntingu og sjáum hvað verður. Því hversu ólíklegt sem það kann að vera að við komumst alla leið til stjarnanna, þá er alveg víst að sá sem miðar þangað, kemst alltaf lengra en sá sem miðar allt við kjarrið.




37 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page