top of page

Sjónarhorn sem bætir sinnið


Flatasel 5 úr lofti.

Ég er búinn að eiga nokkra erfiða daga undanfarið, þar sem heilsan hefur ekki verið að vinna með mér. Það er auðvitað ekkert nýtt og ekki hafa þessir dagar verið erfiðari en margir undanfarin ár. Að því leitinu þá er allt eins og venjulega, þó ekki sé það endilega eins og það eigi að vera.


Þegar ég tók á loft með flygildinu mínu í hádeginu var ég minntur á mikilvægi þess að fá nýtt sjónarhorn á hlutina. Þó húsið mitt sé þarna í miðjunni, þá er það ekki það eina sem er mikilvægt á myndinni. Fegurðin er allt í kringum okkur og undir þaki hússins er heimili mitt og varnarþing fjölskyldunnar. Þar sem töfrarnir lifa góðu lífi og næra næsta umhverfi sitt. Hjartað sem veitir gleði og hamingju, langt útfyrir veggi hússins.


Ég er heldur ekki veikindin mín, eða hylkið sem ég fæ að ganga um í yfir daginn. Lífið mitt er ekki þreyta, verkir eða vanlíðan heldur það sem hjarta mitt hefur að geyma. Hamingjan kemur ekki til mín, heldur kemur hún frá mér og hún er nærð af því sem í kringum mig er. Af því leyti er ég blessaður umfram allt, umkringdur góðu fólki sem elskar mig eins og ég er í samfélagi sem samþykkir mig, umber og umvefur.


Í dag er ég þakklátur fyrir að ég gat lyft mér aðeins uppúr eymdinni og séð blómin allt í kringum mig, hjörtun í hverfinu. Leitt hugann að því fallega sem umvefur mig í stað þess að einblína á það sem betur má fara.


23 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page