top of page

Símatími

Í eigin hugar heimi

halda þau af stað.

Með heyrnartól á höfði

Þau hlusta, sama hvað.

Í risastórri, víðri veröld

verja sínum tíma.

Þar er hátt til lofts og vítt til veggja

Í agnarsmáum síma.

Okkur er í lófa lagið

að leggja hann til hliðar.

En óheft ferðafrelsið er

of ljúft er svona miðar.

Ferðalaginu heitið er

vítt og breitt um heiminn.

Best er heima að halda sig

þegar við erum feimin.

Svo hér við sitjum

hlið við hlið og viljum ekki annað,

nema kannski að horfa á það

sem okkur er stranglega bannað.

Ferðalagið endalaust

auðveldlega getur orðið.

En hætta þarf leik er hæst hann stendur

þegar matur er kominn á borðið.


Símatími er dekurstund fyrir börnin

"Megum við fá símatíma?" er nær dagleg fyrirspurn yngri deildarinnar á heimilinu. Fátt er eins eftirsóknarvert eins og að fá að sitja með sinn hvorn agnarsmáann töfraskjá milli handanna og þvælast um undraveröld internetsins um skemmtidagskrá jútjúbs, leikja og annarra snjallforrita.


Línuleg dagskrá sjónvarpstöðvanna er fyrir löngu hætt að vera spennandi, þó allt sé þar með vandaðasta móti og allt á íslensku. Hér fá börnin að ráða sér og ferðalögum sínum sjálf að mestu. Þeytast um óravíddir internetsins og gæða sér á skemmti- og fræðslumolum víðsvegar að eftir eigin hentisemi og áhuga hverju sinni.


"Frelsið er yndislegt, ég vil gera það sem ég vil" sungu þeir Nýdönsku í mínum ungdómi og ég var gjarn á að taka undir. Mér sýnist að þeim boðskap sé vel tekið milli kynslóða.


20 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page