top of page

Sigur eilífðarstúdentsins


Unnar útskrifaðist með stúdentspróf haustið 2019 - þrjátíu og einu ári eftir upphafi skólagöngu
Unnar útskrifaðist með stúdentspróf haustið 2019 - þrjátíu og einu ári eftir upphafi skólagöngu

Haustið 1988 hóf ég nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og nam þar náttúrufræði í fjögur frábær ár. Það urðu smávægileg mistök gerð á lokametrum námsins sem varð til þess að mér auðnaðist því miður ekki að útskrifast með vinum mínum og samferðafólki.


Auðvitað réttlætti ég kvöldið örlagaríka þegar ég ákvað að sleppa síðasta lokaprófinu fyrir stúdentspróf að ég ætlaði hvort eð er ekkert í háskóla, ég hafði annað á prjónunum. Raunverulega ástæðan var sú að ég var illa undir prófið búinn og valdi frekar töffaraskap og skeitingaleysi heldur en það sem ég óttaðist mest, að falla.


Þetta hefur kostað mig hæðnisglósur í 27 ár frá þeim sem til þekkja og í jafn mörg ár hef ég hugsað um að láta verða af því að klára stúdentsprófið mitt, þó háskólanám hafi ekki verið fyrirhugað.

Raunverulega ástæðan var sú að ég var illa undir prófið búinn og valdi frekar töffaraskap og skeitingaleysi heldur en það sem ég óttaðist mest, að falla.

Þegar ég lít til baka finnst mér ótrúlegt að ég vildi frekar taka töffarann á þetta og reyna að grínast í gegnum óhjákvæmilegar athugasemdir og almenn leiðindi en að reyna og mögulega mistakast. Að það skuli virkilega vera svo slæmt að viðurkenna mistök eða vanmátt, að maður skuli velja svona undankomuleið. Ég veit að ég er ekki einn. Það eru enn margir sem eru of töff til að mistakast. Sem myndu í það minnsta aldrei viðurkenna það með ömurlegum hliðar- og aukaverkunum, hvort heldur er í námi eða starfi.


Afsökunin mín var þó ekki feik. Ég hugði ekki á frekara nám að studentsprófi loknu árið 1992, en auðvitað get ég aldrei svarað hvaða áhrif þessi ákvörðun mín hafði. Mér hefur vegnað ágætlega í lífinu og lært að læra á mínum forsendum og rétt eins og í skólanum, alltaf átt auðvelt með það. En vegna þess að ég hafði ekki prófgráðu, þá sótti ég aldrei aðra slíka. Gerði sjálfsmenntun að mínu aðalfagi.


En loksins lét ég verða að því. Frumburðurinn var að byrja í skólanum og vildi feta í fótspor pabba gamla og hefja nám í MH. Ég hafði því erindi í gamla skólann minn og gerði mér far til fundar áfangastjóra skólans til að dusta rykið af gamla einkunnablaðinu mínu og fá það endurmetið til eininga á náttúrufræðibraut sem hafði tekið einhverjum breytingum á þrjátíu árum. Niðurstaðan var að ég þurfti að taka eitt próf til að ljúka tveimur einingum sem upp á vantaði til að útskrifast.


Ég skráði mig strax í fjarnámi í enskuáfanga og lauk honum með ágætum og fékk í kjölfarið staðfestingu á að ég myndi útskrifast með nýjum skólafélögum mínum í desember og veita prófi mínu viðtöku. Ásamt auðvitað því að bera hvíta kollinn prófi mínu til staðfestu, þrjátíu og einu ári eftir að stefnan var sett.

Hvað þú gerir með það sem þú kannt er það sem máli skiptir, ekki bara hvað þú kannt.

Á öllum þessum árum hef ég oft og mikið hugsað um mikilvægi náms, eðli þess og tilgang. Mér fannst fáránlegt að þegar ég byrjaði í MH voru um 80% nemenda ekki búin að ákveða sig hvað þau vildu læra. Ég ákvað það 12 ára og námið var verkfæri að takmarki, ekki markmið í sjálfu sér eins og virtist hjá flestum. Hvað þú gerir með það sem þú kannt er það sem máli skiptir, ekki hvað þú kannt. Mér fannst nám ómarkvisst og stefnulaust. Ég setti mig ekki í spor flestra sem voru einmitt þar, óákveðnir og skorti stefnu. Námið þurfti að miða að stöðu flestra.

Hugsanlega var einhver uppreisn í mér þannig að ég vildi standa mig jafnvel eða betur en þeir sem sátu á skólabekk.

Jákvæði punkturinn er kannski sá, að þó ég hafi aldrei sótt mér prófgráður, þá hef ég verið mjög meðvitaður um og markviss í að mennta mig í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hugsanlega var einhver uppreisn í mér þannig að ég vildi standa mig jafnvel eða betur en þeir sem sátu á skólabekk.

Það var kannski blessun mín að internetið var að ryðja sér til rúms um svipað leyti og formlegt nám mitt sigldi í strand. Ég gat sótt mér þær upplýsingar, menntun og æfingu fyrir framan tölvuskjáinn heima hjá mér. Og það hef ég alla tíð gert.


Hvaða leið sem við veljum í námi, mæli ég með að við lítum alrei svo á að við séum fullnuma. Prófgráður eru mikilvægar, en ekki nauðsynlegar. Allir geta lært utan og innan hefðbundins skólakerfis og leiðunum fjölgar með hverju árinu. Setjum okkur það markmið að læra eitthvað nýtt á hverju ári, halda okkur í æfingu með það sem við vitum að við gerum vel og stefnum á að deila þeirri þekkingu og hæfni með öðrum.


Það er betra að klára seint en leggja ekki af stað. Fara hægt og ljúka því sem hafið er, heldur en geysast af stað og gleyma sér.88 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page