Ég ólst upp við hasarmyndablöð. Ofurhetjur í glæsilegum búningum úr einhverju framandi gerviefni, oft með skikkju á bakinu og yfirnáttúrulega ofurkrafta. Það var sama hversu slóttugir eða hrikalegir vondu kallarnir voru, ofurhetjan bar alltaf sigur úr bítum. Á síðustu blaðsíðu var heiminum bjargað eftir magnaða orustu sem undir lok sögunnar var oftar en ekki nærri því að vera töpuð. Heimsendir var reglulega í nánd og án undantekninga var það ofurhetjan okkar sem bjargaði okkur frá tortýmingu á ögurstundu.
Uppáhaldið mitt var Súperman. Enginn getur verið sterkari en sá sem getur lyft jörðinni, flogið hraðar en ljósið, með ofurheyrn og röntgensjón. Með það í huga var reyndar merkilegt hvað hann þurfti að hafa mikið fyrir því að vinna erkifjendur sína. Hann hafði jú veikleika sem gerðu hann mannlegan. Fyrir utan Kriptónít, þá var það kærleikurinn sem var honum helst fjötur um fót. Ást hans á Lois Lane eða fólkinu sem hann var ætíð að bjarga. Óvinirnir á hinn bóginn höfðu enga samvisku og eirðu engu og engum.
Ég hef ennþá gaman af ofurhetjum.
Uppáhalds ofurhetjurnar mínar í dag eru hinsvegar ekki einmana karlar með komplexa og ofurkrafta. Enda virðast engir slíkir sjáanlegir sem líklegir eru til að bjarga plánetunni okkar frá eyðileggingu, annarsstaðar en í ímynduðum háskerpuheimi.
Uppáhalds ofurhetjan mín í dag, steig fram á sjónarsviðið í gulri regnkápu með kröfuspjald fyrir framan sænska þinghúsið til að vekja athygli á mikilvægasta málstað samtímans. Gretha Thunberg er 16 ára stelpa frá Svíþjóð með Asperger heilkenni.
Hún er ekki að benda á neitt nýtt. Eitthvað sem vísindamenn um allan heim hafa verið að benda á í meira en þrjá áratugi. En það sem öllum hefur hingað til mistekist, virðist Grétu vera að takast. Að sameina fólk í baráttunni um breytingar. Á örfáum mánuðum hefur þessari ungu stúlku tekist betur að vekja athygli á komandi vá en nokkur annar, reyndar svo rækilega að tugþúsundir mótmæla nú um allan heim í hverri viku og milljónatugir fylgjast með.
Gréta er ekki með ofurkrafta, en henni er að takast að sameina krafta nógu margra til að niðurstaðan verður sú sama. Enginn stenst okkur snúning ef við leggjumst öll á eitt að breyta, bæta og gera rétt. Meira að segja að bjarga jörðinni okkar. Rétt eins og í hasarmyndablöðunum, þá hefur óvinurinn enga samvisku og eirir engum.
Lífið á jörðinni eins og við þekkjum það er í hættu.
Ég er í liði með Grétu.
Ég ætla að leggja mitt af mörkum og gefast ekki upp.
Framtíð barnanna okkar gæti oltið á því.
Enginn getur allt. En allir geta eitthvað.
-Unnar Erlingsson
Comments