top of page

Nú er það svart

Ég steig á vigtina í morgun og það má segja að mér hafi sortnað fyrir augum. Í dag er svartur föstudagur og hann ber nafn með réttu.

Það er enginn afsláttur veittur á viktinni
Það er enginn afsláttur veittur á viktinni

Það er samt ekki svo að þetta hafi komið fullkomlega aftan að mér. Ég hef vitað í hvað stefndi í nokkurn tíma, rétt eins og að föstudagur kemur í hverri viku og svartur föstudagur árlega. Ég hef líka verið mjög meðvitaður um hvað veldur þessari óþarfa þyngdaraukningu undanfarin ár en það hefur varla gert meira en að hægja aðeins á þróuninni. Ég hef einfaldlega neytt meira en ég þarf. Sökin er mín og kvölin í hvert sinn sem ég stíg á vigtina eða horfi á mig í speglinum. Verst hvað er erfitt að spóla til baka! Og þrátt fyrir ótal tilraunir til að breyta þessari óheillaþróun á ég enn nokkuð í land.


Fyrir marga er dagurinn í dag upphafsdagur stærstu neysluhátíðar ársins þar sem allt flæðir

í frábærum tilboðum á öllum hlutum sem hugurinn girnist. Allir gera góðan díl í stórum stíl. Jólin eru í nánd.


Mér er litið niður á framstæða bumbuna og hugsa sem snöggvast, þarf ég virkilega á þessu að halda? Er nóg pláss í geymslunni?


Nú flæða yfir mig tilboð sem ég veit að verða komin aftur á tilboð rétt fyrir jólin og svo enn aftur í janúar þegar útsölurnar hefjast af krafti. Líklega spara ég bara mest á því að kaupa ekki meira. Hægja aðeins á neyslunni. Leggja jafnvel eitthvað til hliðar og gefa öðrum. Leyfa öðrum að njóta þess sem ég á og get gefið, það er víst af nægu að taka þegar ég lít í kringum mig. Sem minnir mig á það, ég þarf víst að fara að taka til í geymslunni… aftur.


Eina raunhæfa leiðin til að fá afslátt á viktinni er minni neysla. Einfaldara líf fæst með því að kaupa færri hluti og nota þá lengur og betur. Njóta betur.


55 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page