top of page

Kostnaðarsamt en gefandi knattspyrnusumar framundan

Nú er Íslandsmótið að hefjast hjá unglingnum á heimilinu, tíunda árið í röð og það síðasta áður en hann flyst upp í flokk fullorðinna, á 16. aldursári. Hann er sem sagt á eldra ári í þriðja flokki og eins og öll sumrin á undan, síðan hann hóf æfingar með vinum sínum 5 ára að aldri, er heilmikið prógram framundan.

3. flokkur Hattar á undirbúningstímabilinu fyrir Íslandsmótið að búa sig undir æfingaleik gegn KA á Fellavelli
3. flokkur Hattar á undirbúningstímabilinu fyrir Íslandsmótið að búa sig undir æfingaleik gegn KA á Fellavelli

Íslandsmót KSÍ - 3. flokkur karla C2 deild

Íslandsmótið telur 9 lið í hverjum riðli og leikið er heima og heiman. Það þýðir 16 leikir yfir sumarmánuðina og af þessum níu liðum eru sex frá Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi. Ef vel ætti að vera þýðir það sex ferðir suður, ein til Húsavíkur og ein í Fjarðabyggð. Til að skera niður kostnað er mótið skipulagt þannig að hægt er að leika tvo leiki í hverri ferð á suðvestur hornið. Við það eitt sparast tæpar tvær milljónir króna fyrir flokkinn.


Fyrsti leikur sumarsins var leikinn á Norðfirði, þangað eru aðeins um 70 kílómetrar héðan frá Egilsstöðum og því liggur beint við að foreldrar taki sig saman og fylgi börnum sínum á leikinn. Eða í það minnsta nógu margir svo allir fái far. En þar er líka kostnaður, þó falinn sé. Ég hef mörg undanfarin ár tekið þátt í að fylgja liðinu á "fjölskyldurútunni" og skrifaði nokkur orð um það fyrir nokkru síðan undir heitinu "5003 km fótboltaferðalag" sjá hér: www.ekkigefastupp.com/post/5003-km-fotboltaferdalag


Næstu leikir eru við Grindavík og Reyni Sandgerði, svo flogið er til Reykjavíkur og ekið á Reykjanesið til keppni tvo daga í röð. Þá byrjar vinna tengla flokksins við að bóka flug og bíla, gistingu og fleira. Þann kostnað sem þessum ferðalögum fylgir langaði mig að gera stuttlega grein fyrir. Tilgangurinn er fyrst og fremst til glöggvunnar, fæstir virðast gera sér grein fyrir hver hann raunverulega er, enda að mestu falinn í óeigingjörnum framlögum aðstandenda og foreldra. En þegar þarf að kaupa flugferðir eða greiða út í hönd fyrir ferðakostnað, þá hrökkva margir við. Getur þetta virkilega verið svona dýrt?


Þrjár ferðir fyrir flokkinn til Reykjavíkur, til að spila 6 leiki Íslandsmótsins er áætlaður kostnaður 1.780.000 krónur.
Þrjár ferðir fyrir flokkinn til Reykjavíkur, til að spila 6 leiki Íslandsmótsins er áætlaður kostnaður 1.780.000 krónur.

Kostnaður við flug

Íþróttafélög njóta sérkjara hjá Air Iceland Connect í gegnum Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) sem nemur 2.500 krónur afslætti á fluglegg af því fargjaldi sem í boði er, það er því 5.000 krónur af ferðinni fram og til baka. Sé hópurinn stærri en 9 manns er gert ráð fyrir að leita tilboða hjá hópadeild flugfélagsins. Þegar þetta er skrifað er nýbúið að semja um flug fyrir 16 drengi auk þjálfara, sem kostaði 559.912 krónur sem gera að meðaltali 32.936 krónur fyrir hvert sæti.


Kostnaður við bílferðir

Þegar til Reykjavíkur er komið, þarf að redda bílum og bílstjóra til að aka á milli staða. Gerður var samningur við bílaleigu upp á 56.068 krónur fyrir tvo 9 sæta bíla og pabbi eins stráksins sem verður í vinnuferð í Reykjavík, tekur að sér fararstjórn og akstur annars bílsins en þjálfarinn ekur hinum. Þannig sparast flugferð fyrir fararstjórann og mögulegt reynist að aka öllum án kröfu um stærri bíl og ökumanns með meirapróf. Það er að ýmsu að hyggja. Áður en bílunum er skilað þarf svo að sjálfsögðu að greiða fyrir eldsneyti.


Kostnaður við gistingu

Leitast er eftir eins ódýrri gistingu og hægt er og í samanburði við hitt, er varla vert að nefna það, en í þessu tilfelli er gengið frá gistingu í íþróttasal með svokölluðu dýnugjaldi og greitt fyrir það 25.000 krónur fyrir allan hópinn. Við það bætist svo auðvitað fæðiskostnaður sem hver og einn ber sjálfur. Sumir taka með sér eitthvað nesti, aðrir fá að koma við í búðinni eða snæða eitthvað í sjoppunum sem á vegi verða. Oft hafa foreldrar séð um mat líka, verslað inn og matreitt eitthvað til að spara þar einhverjar krónur en auðvitað alltaf á sinn kostnað í ferðalögum og tíma.


Svona lítur þá dæmið út fyrir þessa einu ferð:

  • Flug: kr. 559.912

  • Akstur: kr. 56.068 (+ bensín)

  • Gisting: kr. 25.000

  • Samtals: kr. 640.980

  • Útlagt pr. leikmann: kr. 40.061


Áætlaður heildar ferðakostnaður Íslandsmótsins í sumar

Á Íslandsmótinu í ár eru þrjár svona ferðir áætlaðar (sex leikir), auk ferða til Norðfjarðar og Akureyrar. Varlega er því áætlað að útlagður kostnaður flokksins vegna ferðalaga eingöngu yfir sumarmánuðina, á þetta eina mót sé um 2.310.000 krónur. Þar af eru flugfargjöld 1.780.000 krónur fyrir 16 manna leikmannahóp áuk þjálfara og fararstjóra.


Samtals má því gera ráð fyrir að ferðakostnaður fyrir hvern leikmann í sumar sé nærri 145.000 krónum.Þakkir til þeirra sem gera þetta mögulegt

Niðurstaðan fyrir þetta sumar er sú sama og öll hin fyrri. Það er afskaplega gefandi en líka kostnaðarsamt að vera fótboltaforeldri, ekki sýst út á landi. Ferðakostnaður er íþyngjandi fyrir flesta en mikilvægt að við leggjum okkur öll fram við að halda honum í lágmarki svo allir fái að njóta. Og kærar þakkir til ykkar sem gera einmitt það, með þrotlausri sjálfboðavinnu við allt sem í kringum þetta er. Við hjónin og börnin okkar stöndum ykkur í þakkarskuld.


Áfram Höttur!


Unnar Erlingsson

-fótboltaforeldri


 

KSÍ - Leikjaáætlun, staða & úrslit: Íslandsmót - 3. flokkur karla C2 deild 2019:

556 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page