top of page

Jólasveinarnir eru víða


Kátir jólasveinar við hæsta jólatré landsins á Egilsstöðum.
Kátir jólasveinar við hæsta jólatré landsins á Egilsstöðum.

Það var á aðfangadag í fyrra að ég rakst á þessa jólasveina dansandi í kringum jólatré hér á Egilsstöðum. Það var að loknum erilsömum vinnudegi þeirra bræðra, rétt eftir að þeir höfðu heimsótt yfir 200 börn í þéttbýlinu og nágrenni þess, fært þeim gleðilegar fréttir og gjafir um leið og þeir gerðu sitt besta til að gleðja stóra sem smáa sem á vegi þeirra urðu. Ég veit að það voru ekki allir himinlifandi, einhverjir undrandi, feimnir og örfáir jafnvel hræddir, enda hávaðasamir þegar gleðin stendur hæst, það er ekki fyrir alla.


Jólasveinarnir eru allskonar. Stórir, litlir, feitir, stríðnir, fyndnir og háværir en umfram allt eru þeir bestu skinn og vita ekkert betra en að gleðja aðra. Og um það snúast jólin, að sýna kærleika í verki, hjálpa öðrum og gleðja hvort annað. Allir ættu að geta sameinast um það.


Ég er þakklátur fyrir að vera í hópi þessara rauðklæddu vina minna og hlakka til að hitta þá aftur núna fyrir jólin. Því þó ég eigi ekki svona fallegan rauðan búning og mig prýði ekki svona myndarlegt skegg, þá samsama ég mig með þessum stórgerðu, hávaðasömu og skemmtilegu vinum mínum. Á einhverjum tímapunkti í lífinu getum við öll verið í hlutverki jólasveinanna og látið gott af okkur leiða, gefið og glatt þá sem á því þurfa að halda.


Já, ég vil vera jólasveinn.

41 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page