Ég lenti í lítilsháttar vandræðum þegar ég var að segja frá konunni minni um daginn.
Hún er best, en samt ekki. Þeir bestu keppa. Leggja sig alla fram, æfa sig, aga sig, vinna ótrauðir að settu marki og sigra að lokum. Þess vegna verða þeir bestir.
Lífið er að stórum hluta keppni. Við erum alin upp við það að þeir hæfustu lifa, þeir sem verða undir eru fótum troðnir og skildir eftir í höndum þeirra "aumingjagóðu". Stundum er tilfinningin sú að fátt hafi breyst frá upphafi þegar dýr merkurinnar ráfuðu um jörðina og það eina sem skipti máli var að éta, ellegar verða étinn.
Aldan mín er hinsvegar eins fjarri því að vera keppniskona og austrið er frá vestrinu. Hún þolir ekki keppni. Hún horfir á íþróttir af því að öðrum finnst það gaman og vegna þess að hún hefur áhuga á fólki, sem leggur sig fram og sigrar sínar eigin áskoranir. Hún fagnar með fagnendum, grætur með syrgjendum og biður fyrir þeim sem hún getur ekki hjálpað sjálf.
Hún er það fallegasta sem ég veit. Ekki vegna útlitsins, þeirri staðreynd að hún er glæsileg og falleg að utan, heldur vegna hjartalagsins hennar. Fegurðin flæðir þaðan og ég fæ að finna fyrir fegurð hennar á hverjum degi.
Hún er góð, bara ekki best en samt er hún auðvitað best. Hún er góðasta kona sem ég þekki.
Ljósmynd: Guðný Lára
Comentarios