top of page

Gerðu þitt besta


Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Egilsstaðanes við Lagarfljót
Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Egilsstaðanes við Lagarfljót
Gerðu þitt besta, gerðu það sem er rétt og komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig.

Ég var að ræða við nokkra vini um daginn um umferðamenninguna hér á landi. Það var eiginlega sama hvað var rætt, flest mátti betur fara, fátt, ef nokkuð var gott og allmargt var einfaldlega afleitt. Þó vitnuðu flestir um að þegar þeir voru í ökunámi, þá var þeim kennt að gera hluti svona og hinsegin og allir í hópnum voru sammála um að það sem betur má fara í umferðinni er ekki þannig vegna þess að okkur hafi ekki verið kennt það.


Allt of margir, aka of hratt, nota ekki stefnuljós, aka of hægt á vinstri akrein, hleypa ekki auðveldlega framúr, fara inn á gatnamót án þess að komast yfir og stífla umferð, nota ekki bílbelti, skafa ekki rúður vel á veturna og þannig mátti áfram telja.


Og auðvitað á þetta við margt fleira en umferðina. Okkur virðist ekki alltaf ganga vel að gera það sem okkur hefur verið kennt. Við kunnum það, við vitum hvers vegna gott eða betra er að gera það, en þrátt fyrir allt, þá gerum við það ekki.


Við höfum eflaust margskonar ástæður og afsökun fyrir því að geta ekki gert allt og fylgt öllum reglum sem okkur eru settar í nútíma þjóðfélagi. Umferðin getur jú vissulega verið erfið viðureignar og umferðalögin eru mörg og sum hver kannski flókin. Þess vegna þurfum við að vera dugleg að vera hvort öðru góð fyrirmynd og hvetja hvort annað til þess að vera einmitt það. Til er ein gullin regla sem staðist hefur tímans tönn og virðist eiga meira og meira við, eftir því sem árunum og fólkinu í kringum okkur fjölgar:

Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Innst inni vitum við nefnilega hvað er rétt og ef við aðeins leggjum okkur fram, gerum okkar besta við að halda þessa einu reglu, þá verður lífið betra fyrir alla.


 

-Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Egilsstaðanes við Lagarfljót

62 views0 comments

Comments


bottom of page