top of page
Writer's pictureUnnar Erlingsson

Gelgjuskeiðið


Gelgjan - Zitz

Ég var aldrei mikill bókaormur, þótti lestur allt of hægfara tómstundaiðja. Bækur voru langar og seinlesnar og sjaldan nokkrar myndir. Myndasögurnar voru hinsvegar frábærar, svona á milli þess sem maður gat horft á myndir í sjónvarpi, þar sem maður fór í gegnum þykkar bækur á 90 mínútum sléttum. Allt í lit og eintómar myndir. Framan af var líf mitt svolítið litað af hraða. Mikilvægast að komast yfir sem mest á sem stystum tíma.


Auðvitað eru myndasögur líka bækur. Reyndar algerlega frábær flokkur bókmennta sem eru mikið dýpri og margslugnari en margir gera sér grein fyrir. En það var ekki sjónarhorn sem ég hafði þá. Alla æskuna voru myndasögur uppáhalds, enda löng venja fyrir því í Grashaga 9, æskuheimilinu á Selfossi, að finna nokkrar slíkar í jólapökkum hverra jóla. Þær voru svo lesnar upp til agna fyrir svefninn og svo þegar maður vaknaði, aftur og aftur og aftur og jafnvel enn í dag.

Þegar ég fór að bera út blöð, stubbur að aldri, þá klippti ég út úr dagblöðunum teiknimyndasögur og límdi inn í gamla símaskrá. Um tíma var ég að bera út öll dagblöðin sem út komu, Morgunblaðið, Dagblaðið, Vísi, Tímann, Þjóðviljan og Alþýðublaðið (sem var reyndar svo ómerkilegt að það voru ekki einu sinni teiknimyndasögur í því). Þetta var gósentíð. Fullt af fríu skemmtiefni á hverjum degi.


Eðlilega hefur ýmislegt breyst. Upp úr þrítugu fór ég að gefa mér tíma til að lesa bækur og gat jafnvel notið þeirra án mynda. En áhuginn á teiknimyndasögum og skrýtlum sem ég lá yfir í gömlu dagblöðunum er enn til staðar. Ég fylgist enn með þeim á rafbrautum alnetsins og hrífst enn að hugmyndaflugi og ótrúlegri sköpunarhæfni listamanna, teiknara og textahöfunda að koma flóknu efni til skila á ótrúlega einfaldann og skemmtilegan máta.


Ein af uppáhalds teiknimyndaskrítlunum mínum í dag er Zitz (ísl. unglingabóla) sem hafa heitið Gelgjan á íslensku. Ástæðan er líklega að ég hef oft séð sjálfan mig í þessum myndum og núna á ég eina rauðhærða gelgju sem finnst þetta ekkert fyndið. Sem er auðvitað sérstaklega fyndið. Hann á örugglega eftir að hlæja með mér einn daginn.


-Unnar

 

Gelgjan á netinu: www.zitscomics.com

61 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page