Það eru margar magnaðar náttúruperlurnar sem við eigum á Íslandi og veðrabrigðin eru það í raun líka.
Þarna sit ég á stórum kletti sem hrunið hefur úr berginu við hellismunna bakvið Fardagafoss, steinsnar frá húsinu okkar. Það var óvenju kalt í veðri fyrir þennan veðursælasta stað landsins, sem varð til þess að bleytan frá fossinum hafði frosið í ótrúlega fallega ískristalla á klettunum allt í kring og grílukertin héngu niður úr hellisloftinu eins og bergið gréti frosnum tárum.
Að utan er þetta ósköp venjulegur foss, eins og þúsund aðrir fossar út um allt land, en þegar við leggjum aðeins aukalega á okkur, gefum okkur tíma, gefum umhverfi okkar gaum, látum ekki veðrið halda aftur af okkur, þá sjáum við oft og upplifum eitthvað sem við gerðum aldrei annars. Eitthvað alveg einstakt, fagurt og fullkomið.
Þannig er það líka um lífið.
ความคิดเห็น