top of page

Fjallkonan mínÁ þessum degi fyrir réttum tveimur árum (2017) varð ég eiginmaður Fjallkonu.


Það er ekki öllum gefið að verða valin Fjallkona...

"Hún þarf að vera vel máli farin með skýran framburð. Kona sem hefur virðingu samborgara sinna og hefur góð áhrif á fólk í kringum sig, manngæsku og hlýju."

...og þar er Öldunni minni vel lýst.


Til að bæta við stoltið flutti þessi engill ljóð langömmu minnar, Guðfinnu Þorsteinsdóttur (skáldkonan Erla) sem örugglega var samið sérstaklega fyrir þetta tilefni á fyrstu dögum lýðveldisins 1944. Ljóðið birtist fyrst í ljóðabókinni Fífulogar sem gefin var út 1945.


 

Lýðveldisljóð


Á hátíð þinni, ættjörð, á léttum vængjum ljóðs

Ég líð úr bláum fjarska til þings og kveð mér hljóðs.

Ég vildi mega laufblað í sigursveiginn flétta

Er sagan hefur ofið og börnin klökk þér rétta.


Í holustunnar nafni það létta laufblað mitt

Ég legg á meðal blóma í prýdda skautið þitt.

Þar skráð er huldu letri þín lærdómsríka saga

Í langri frelsisbaráttu allt til vorra daga.


Nú hafa máttug örlögin hlekki þína sprengt

Og höggvið á það band er um tápið þitt var strengt.

Við fögnum einum huga. Þér opnast aftur sundin.

Við erum bænheyrð, móðir, og komin óskastundin.


En frelsið leggur ábyrgð á herðar hverjum þegn.

Og heilög sé þeim skyldan svo engum verði um megn

Af fórnarlund með alúð að þjóna velferð þinni,

Í þegnskyldunnar nafni að gegna köllun sinni.


Og þess er vert að gæta, þá frelsi fengið er,

Að fjöregg það er dýrmætt en brothætt eins og gler.

Ef valdstreitunnar sundrung á "Hólmann" fær að herja

Þá hopa kynni liðið sem frelsið átti að verja.


Þó skipti oft í svipan um heilla þjóða hag

Vér hamingjuna blessum að lifa þennan dag.

Því setjum oss þann metnað og sýnum hann í verki,

Til sæmdar fram að bera hið dýra þjóðarmerki.


Nú loks er greiddur framkvæmdaþáttur þessa máls,

Að þjóðarhöndin orðin er gerða sinna frjáls.

Ef stjórnast hún af árvörum huga, aldrei hálfum,

Við höndlum einnig frelsið er býr í okkur sjálfum.


En framtíð vor er hulin á bakvið tímans tjöld

Og töpin skráði saga á minninganna spjöld.

Í framtíðinni einnig hún fellir um það dóma

Hvort farið er með völdin til hneisu eða sóma.


Nú verða menn og konur í hverri stöðu og stétt

Að standa fylktu liði um þjóðarhag og rétt,

Að taka saman höndum í trú á fósturlandið

Og treysta vel í framkvæmdum skylduræktar bandið.


Og heill sé þeim sem fara með okkar æðstu völd

Að auðnist þeim í framtíð að bera heiðan skjöld

Í baráttunni ströngu sem hljóta þeir að heyja

Svo haldið geti velli hin forna sögueyja.


Í líknarhönd guðs föður nú leggjum allt vort ráð,

Í leyndum hjartans biðjum um visku, trú og dáð,

Við ugglaus megum vera þó freyði fyrir stafni

Ef fleytu vorrar þjóðar er siglt í drottins nafni.


- Guðfinna Þorsteinsdóttir

 

Hljóð og mynd:


131 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page