top of page

Bros, ljós og framtíð

það er fátt, ef nokkuð sem brosið ekki bætir. Rétt eins og ljósið í myrkrinu, hversu lítið sem það er, verður ekkert eins áberandi og ljósið. Ljós veitir von. Bros vekur gleði.


Það eru fjölmörg tímamótin á lífsleiðinni, áramót eru ein þeirra. Þá lítum við gjarnan yfir það sem liðið er og gerum svo áheit um það sem framundan er. Í hvaða stöðu sem við erum, þá kemst enginn hjá því að stefna áfram og öll óskum við þess að eitthvað betra taki við, hversu gott eða slæmt sem það var sem er að baki.

Glitský á himnum fyrir utan stofugluggann minn um áramótin.
Glitský á himnum fyrir utan stofugluggann minn um áramótin.

Ég hef haft það fyrir venju að setja mér fjölmörg markmið á þessum árlegu tímamótum. Í rafrænni minnisbók minni eru þau skilmerkilega skráð og flokkuð. Í ár eru flokkarnir sjö talsins eins og árið á undan þegar mér telst til að 38% árangri var náð. Það er ekki frábært, í skóla er það fall. En í skóla lífsins er það 38% árangur umfram ekkert. Mér er að takast eitthvað sem mér annars hefði líklega ekki tekist. Ég ætla mér að gera betur í ár eins og öll hin árin á undan.


En mikilvægusta heiti hvers árs lúta að fjölskyldunni minni. Samveru með börnunum mínum og reglulegum hjónastundum með ástinni í lífi mínu. Ég veit að það hljómar ekki rómantískt að þurfa að setja sér slíkt sem sérstakt markmið, eða taka frá tíma fyrir jafn sjálfsagðan hlut. En reynslan hefur kennt mér að ef ég geri það ekki, þá hættir mér til að láta fjölskylduna mína mæta afgangi. Ég veit að þannig er því farið hjá mörgum og af reynslu þeirra langar mig líka að læra að gæta mín og vera til staðar fyrir þá sem á mér þurfa að halda, vitandi hversu mikið ég þarfnast þeirra líka. Þegar upp er staðið er það fólkið í lífi mínu sem er það mikilvægasta sem ég á og fæ að njóta lífsins með.


Og þá komum við aftur að mikilvægi þess að brosa. Til að njóta samveru er bros mikilvægt íblöndunarefni og algerlega nauðsynlegt í hæfilegu magni fyrir fjölskylduna. Þá þurfum við líka að læra að meta ljósið í myrkrinu, hversu lítill sem loginn er. Vonin er bjartari þegar við brosum. Lífið er skemmtilegra þegar við eigum von og getum brosað saman.


37 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page