top of page
Writer's pictureUnnar Erlingsson

Fegurðin við að verða fimmtugur

Það var að morgni dags, 29. janúar 1972 sem ég kom brosandi í heiminn. Ég hef ekki heyrt annað en að það hafi verið blessun og fögnuður fyrir foreldrana en bróðir minn sem var fjögurra ára var ekki eins hrifinn. Svo lengi sem ég man eftir mér hefur sú saga reglulega verið sögð þegar bróðir minn spurði af hjartans einlægni, "Getum við frekar fengið okkur hund?"


Sagan af því verður ekki reyfuð hér og ekki heldur farið mörgum orðum um þann tíma sem á milli leið. Heldur langaði mig bara að hafa nokkur orð um þessi ágætu tímamót sem mér voru færð að morgni þessa sama dags, fimmtíu árum síðar. Ég þekki nokkra sem kvíða hverjum áratug, jafnvel hverju ári. Ég hef aldrei fundið fyrir slíku og hef þvert á móti fagnað hverju ári, hingað til í það minnsta. Og því eldri sem ég verð, þeim mun eldri langar mig að verða.

Það ættu allir að prófa að verða fimmtugir, svona að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þetta er ekki eins slæmt og hægt var að óttast.


Mér telst til að ég hafi orðið gamall fjórum sinnum yfir ævina. Fyrsta skiptið var þegar lítill peyji sem leiddi mömmu sína fyrir framan mig í röð á kassa í Hagkaup, segir við mömmu sína: "Sjáðu manninn þarna..." Ég var 16 ára. En á þessu augnabliki leið mér eins og fertugum. Hin skiptin hafa verið við mót þriggja síðustu áratuga sem alltaf virðast vera stærri tímamót en afmælisdagarnir sem þar eru á milli. Þessum tímamótum hefur alltaf fylgt nokkrar góðlátlegar háðsglósur, sem eru reyndar meira til gamans en háðs leyfi ég mér að fullyrða. Alltént hef ég ákveðið að taka þeim þannig! Við erum öll á ófrávíkjanlegri vegferð í gegnum tímasamfelluna sem er fullkomlega línuleg frá fæðingu til fullorðinsára. Allir sem hæðast eiga eftir að bragða á eigin meðali.


Hver áratugur sem við klífum er hærri en sá fyrri, það liggur í hlutarins eðli. Víðsýnin eykst eftir því sem við komumst hærra. Við verðum líka gætnari, enda fallið hærra og beinin kannski aðeins verr til þess fallin að taka við fallinu. Íhaldsemin þarf ekki að vera slæm, ef við erum meðvituð um ástæðurnar og gætum okkar á að hún verði öðrum ekki hindrun á þeirra vegferð. Það er göfugt markmið og alltaf ástæða til að hugsa aðeins meira um aðra en sjálfan sig.


Og það er enginn skortur á því ef afmælisdagurinn minn er einhver mælikvarði. Það er meirt hjarta sem sendir ykkur þakkir. Hundruðir vina, kunningja og ættingja nær og fjær sem gáfuð ykkur tíma til að senda mér hvatningu, kveðjur og gjafir. Rafleiðis, símleiðis, bréfleiðis og í persónu. Það er ekki sjálfsagt í heimi sem stöðugt reynir að telja okkur trú um að allt snúist um okkur sjálf. Ég er þakklátur fyrir að vera hluti af lífinu ykkar, að fá að taka þátt.

Takk fyrir mig. ❤️

19 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page