top of page

Fimmtugasta aldursárið framundan


Þú komst ekki svona langt til að komast ekki lengra

Við fæðingu teljum við gjarnan daga hvítvoðungsins og fögnum hverjum þeirra. Fyrstu mánuðina teljum við svo vikurnar og fyrsta árið fögnum við hverjum mánuði. Áratugina á eftir fögnum við svo árlega en svo látum við kannski fimmta hvert ár duga. Allt gott og blessað, eðlilegt og fallegt en auðvitað ættum við að fagna hverjum einasta degi og gleðjast eins oft og tækifæri gefst.

Framan af aldri var ég svo mikið að flýta mér að ég missti næstum af æskunni. Fór svo hratt yfir að ég gleymdi að fara í skóla, hafði engan tíma til að skoða heiminn og njóta útsýnisins, finna ilminn af blómunum og heyra fuglana syngja. Lífið snérist um að komast hratt á milli ljósa.

Það var ekki fyrr en guð hvíslaði í eyra mér á öðru hundraðinu á leið í vinnuna í miðri Ártúnsbrekkunni: "hægðu á þér" að ég gerði einmitt það. Skyndilega var eins og allt yrði bjartara, litirnir skýrari og fókus á það sem skiptir máli. Til hvers að flýta sér ef maður nær aldrei að njóta þess sem maður hefur?

Það eru svo margt sem ég hef lært sem ég hefði gjarnan viljað getað tileinkað mér fyrr á lífsleiðinni. Skrítið að líta til baka og sjá svo skýrt hvað mátti betur fara, hversu mikil vonbrigði hefði verið hægt að spara sér með því einu að fara til dæmis bara eftir því sem "gamla settið" var að reyna að kenna manni.

Nú þegar fimmtugasta aldursárið er gengið í garð og yfir mann streyma brandarar og allskonar pílur tengdar aldri þá get ég með sanni sagt að ég fagna hverju ári. Því eldri sem ég verð, þeim mun eldri langar mig að verða. Það er svo ótrúlega margt sem lífið hefur upp á að bjóða og margir vinir og samferðafólk sem ég vil gjarnan getað notið fleiri gæðastunda með.

Ég hef trúað því frá unga aldri að ég muni verða 100 ára. Nú hef ég ár til að semja hálfleiksræðuna. Fara yfir hvað ég hef lært af lífinu og hvað þarf að bæta til að geta klárað leikinn með sómasamlegum hætti. Mér finnst ömurlegt að hafa þurft að húka á varamannabekknum undanfarin ár og geta ekki tekið almennilega þátt í leiknum en þar er líka mikilvægt hlutverk að finna sem hefur gefið mér nýtt sjónarhorn á leikinn og lífið.

Hugarfar þess sem situr á bekknum hefur áhrif á alla sem á vellinum eru og hann þarf að vera tilbúinn þegar kallið kemur að láta að sér kveða, skipta máli fyrir liðið sitt, samfélagið. Þið eruð í mínu liði.

Takk fyrir góðar kveðjur kæru vinir.

Fögnum hverju ári, hverjum áfanga, hverjum degi.

Lifi lífið.

79 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page