top of page

Taflborð lífsins


Snúin staða á taflborði lífsins.

Ég fæddist líklega með hvítt á taflborði lífsins. Máttarvöldin höfðu af einhverjum óþekktum ástæðum gefið mér forskot í vöggugjöf. Frá því að ég man eftir mér hef ég búið við forskot, haft frumkvæði, alltaf fundist eins og ég eigi fyrstur leik. Ekki þurft að bíða eftir neinum eða óttast að á mig yrði leikið. Og ef mér yrði skákað, vissi ég alltaf að ég gæti fundið góðan leik í flóknum aðstæðum lífsins.


Taflborð lífsins

Hver sem aðkoma máttarvaldanna að vöggugjöfinni var, er ég líka meðvitaður um þann hluta sem foreldrar mínir og fjölskyldan áttu í þeirri gjöf. Móðir mín, kennarinn og skörungurinn sem öll mín uppvaxtarár barðist gegn rótgrónum samfélagsviðmiðum og gerir reyndar enn. Hafði skoðun á öllu og var ekki aðeins tilbúin að segja þær upphátt, heldur bretti óhrædd upp ermar og fylgdi þeim eftir. Það voru ekki margar konur í gallabuxum að kenna árið 1972.


Smiðurinn hann faðir minn. Víkingur til vinnu og ósérhlýfnasti og gjafmildasti maður sem ég þekki. Það er varla að ég þekki hann öðruvísi en vinnandi eða standandi við grillið í seinni tíð að gefa og þjóna öðrum. Og það eiga foreldrar mínir báðir sammerkt, vilja allt fyrir aðra gera og veita vel án þess nokkurntíma að vænta einhvers til baka.


Bróðir minn var og hefur alltaf verið þögla týpan í fjölskyldunni. Aldrei borist á eða tranað sér fram. Samt var nú skápurinn í herberginu hans troðfullur af bikurum og viðurkenningum fyrir öll möguleg afrek. Fyrstu ár ævinnar þekkti ég varla bróðir minn öðruvísi en hljóðan og lesandi en svö hrópuðu afrekin hans bara á mann í staðinn. Ég hef líka lært að hlusta þegar hann byrjar að tala, hann þarf nefnilega ekki að hrópa til að á hann sé hlustað.

Með móðurmjólkinni lærði ég mikilvægi þess að leggja mig fram og vinna mig framúr þeim verkefnum sem lífið leggur fyrir okkur. Vera ekki hræddur við mótspyrnu eða viðhorf annarra. Leita lausna og vera sjálfum mér nógur og treysta því að með dugnaði og vinnu, gjafmildi og samkend, með því að leggja mig fram, eru mér allir vegir færir.

Á taflborði lífsins hef ég fengið að upplifa að vera hrókur alls fagnaðar, riddarinn á hvíta hestinum og liðið eins og konunginum sem engu þarf að lúta nema reglum sem hann sjálfur setur sér.

Vöggugjöfinni fylgdi sjálfbjargarviðleitni, enda snemma sjálfstæður og ég hef unnið svo lengi sem ég man. Hóf minn eigin atvinnurekstur strax í menntaskóla og sannfærðist snemma að lífið væri fullt af tækifærum sem biðu þess að verða gripin. Á taflborði lífsins hef ég fengið að upplifa það að vera hrókur alls fagnaðar, riddarinn á hvíta hestinum og liðið eins og konungurinn í eigin lífi sem engu þarf að lúta nema þeim reglum sem ég sjálfur set mér.

En svo var það einn venjulegan og örlagaríkan fimmtudagseftirmiðdag í júní 2015 að ég lagðist í rúmið. Að því er virtist með ósköp venjulega flensu. En mér versnaði og versnaði og á fjórða degi var mér ekið á heilsugæsluna nærri rænulausum með allskonar einkenni sem ég gat ómögulega tengt við nokkuð sem var venjulegt. Eftir ítarlega skoðun var ég sendur aftur heim með uppáskrifaðan lyfjakokteil til að laga ástandið og nokkrum dögum síðar komu niðurstöður rannsóknarinnar. Í mér greindist veira, svo agnarsmá veira að hún var berum augum fullkomlega hulin.

Ég hef líka fengið að upplifa það að vera eins og peðið sem er fórnað.

Í heimsfaraldri miðjum vita orðið margir hvað það getur þýtt. Þó veiran virðist fáum gera mein, þá getur hún gert þessum fáu mjög mikið mein, meira að segja dregið fólk til dauða. Að því leiti er ég heppinn. Biskupinn á taflborði lífsins sem var bænheyrður. Ég fæ að lifa og hreyfa mig, þó með takmörkuðum hætti sé, aðeins á ská miðað við hina. En ég hef líka fengið að upplifa það að vera eins og peðið sem er fórnað. Hjálparvana og lítill á taflborði hinna sterku sem bítast um sigur og völd. Verið algerlega upp á aðra kominn, máttlítill og án valds yfir mínu eigin lífi.


Þá hefur komið sér vel að hugsa til foreldra minna, upprunans og uppvaxtaráranna. Því ég hef lært að gefast ekki upp. Leita lausna og leiða til að láta gott af mér leiða. Ég trúi því enn að ég geti orðið til gagns, ef ég aðeins legg mig fram og held áfram að læra. Ég trúi því enn að hægt sé að finna góðan leik í þessari stöðu sem upp er komin. Ég er skák en ekki mát.


Lífið er núna. Ég ætla ekki að gefast upp.

219 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page