top of page

Afmælisandakt


Til hamingju með það sem skiptir máli í lífinu
Til hamingju með það sem skiptir máli í lífinu

Þegar ég vaknaði í morgun varð mér fljótt gert ljóst með ljúfum tónum söngfuglanna á heimlinu að enn eitt árið liggur í valnum. Alda segir að ég eigi aðeins eftir 7 ár í 55+, sem ku vera orðin almennt viðurkennt markmið þeirra sem vilja fara að hægja á í lífinu. Ég hef orð Öldu fyrir því.


Ég hef hingað til hlakkað til hvers árs, fagna hverju þeirra. Þó þau hafi verið með erfiðara móti undanfarin ár, þá lærir maður um leið á áþreyfanlegan hátt hvað hvert og eitt þeirra er dýrmætt. Ekkert þeirra er sjálfsagt. Og óháð kringumstæðum, góðum, slæmum, erfiðum eða dásamlegum, þá þurfum við öll að ákveða að njóta stundanna sem okkur eru gefnar, hvers árs sem okkur er gefið. Setja fókusinn á það sem skiptir máli, það sem veitir okkur hamingju. Það gerist ekki að sjálfu sér.


Hamingjuleitin

Sum okkar eiga alveg eftir að finna út úr því hvað það raunverulega er sem veitir okkur hamingju. Hvað raunverulega skiptir okkur máli. Það er skemmtileg og gefandi vegferð að komast að því og laga svo lífið að niðurstöðunni. Í mínu tilfelli hefur það orðið til þess að ég geri minna af því sem mér líkar ekki og meira af því sem veitir mér lífsfyllingu, gleði og ánægju.


Litið til baka er ég þakklátur fyrir vegferðina þó vissulega myndi ég velja mér styttri leið í hamingjuleitinni gæti ég farið til baka. En þannig er lífið, ef ég ekki hefði farið þá leið sem ég kaus, væri ég líklega ekki sá sem ég er og kannski ekki að fagna enn einum afmælisdeginum í dag. Svo ég get varla annað verið en sáttur með útkomuna. Ekki síst vegna þeirra sem valið hafa að fara þessa leið með mér.


Við lifum til að elska og vera elskuð.

Í eigingjörnum og sjálfhverfum heimi er undarlegt að komast að þeirri niðurstöðu að það séu aðrir sem skipta mann mestu máli. Og ef ég ætti eina ósk á þessum afmælisdegi mínum væri það að geta verið að meira gagni fyrir þá sem í kringum mig eru. Því niðurstaðan mín í hamingjuleitinni var og er, að ekkert sem við aðhöfumst í lífinu er nokkurs virði nema það sé fyrir aðra gert. Við lifum til að elska og vera elskuð. Allt annað er duft og eftirsókn eftir vindi.


Að því sögðu, takk fyrir að vera fólkið í lífi mínu.

Takk fyrir kveðjurnar, auðsýndan kærleika og vináttu.

Það mikilvægasta í lífinu.

12 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page