top of page

5003 km fótboltaferðalag

Það er stórkostlegt að hafa orðið vitni að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar undanfarin ár. Stuttur en ánægjulegur íþróttaferill minn hófst á malarvellinum á Selfossi og þangað var ég kominn aftur eftir um 30 ára fjarveru frá íþróttaiðkun, sem fararstjóri Hattar frá Egilsstöðum. Tilefnið var keppni í Meistaradeild Olís, árlegu móti fyrir 5. flokk í fótbolta. Malarvöllurinn hafði vikið fyrir gervigrasi, risastór stúka stóð nú við aðalvöllinn og búið að bæta við tveimur grasvöllum í fullri stærð auk æfingavallar. Og við sjáum sambærilega uppbyggingu víða. Knattspyrnuhallir, gervigrasvellir og hvaðeina, sem er vel. "Íslenska knattspyrnuundrinu" er meðal annars þessu að þakka.

Aðstaða til íþróttaiðkunar er víðast orðin frábær, en mikill aðstöðumunur til iðkunar er eftir því hvar á landinu þú býrð.
Aðstaða til íþróttaiðkunar er víðast orðin frábær, en mikill aðstöðumunur til iðkunar er eftir því hvar á landinu þú býrð.

Fjarlægðir og ferðakostnaður

En einn er aðstöðumunurinn sem gjarnan mætti tala meira um, og það eru fjarlægðir og ferðakostnaður liða til að finna iðkendum sínum verkefni við hæfi. Þessu finnum við vel fyrir á Austurlandi. Þetta sumar sem ég ferðaðist með flokknum á öll mót og í alla leiki Íslandsmóts KSÍ ákvað ég að halda aðeins utan um ferðirnar okkar.


Um veturinn var farið á tvö mót, Alcoa mótið á Reyðarfirði og Goða mótið á Akureyri, það síðarnefnda má segja að sé undirbúningur fyrir keppni í Íslandsmótinu, en Höttur keppir í riðli með liðum á Norður- og Austurlandi. Það er stórt svæði yfirferðar með liðum frá Hvammstanga til Hafnar í Hornafirði. Auk leikja Íslandsmótsins, sem eru 10 talsins, var ákveðið að fara á tvö mót um sumarið, N1 mótið á Akureyri og Olís mótið á Selfossi. Vegna góðs gengis á Íslandsmótinu, fengum við svo umspilsleik um þátttöku í úrslitakeppni mótsins, sem var haldið á Akranesi.

5003 kílómetra akstur

Til að gera langa upptalningu stutta, þá ók ég 5.003 kílómetra á þessi mót og leiki sem upp eru taldir hér á undan (aðeins vegalengdir milli staða, ekki heildar akstur). Að auki flugum við einu sinni til Reykjavíkur vegna þátttöku í lokakeppninni sem þýddi að foreldrahópurinn þurfti að skella í enn eina fjáröflunina til að standa straum af 340 þúsund króna auka kostnaði sem því fylgdi. Og auðvitað þurfti að bæta við bílaleigubílum til ferða milli Akraness og Reykjavíkurflugvallar. Til að bæta aðeins á ævintýrið þá lentum við í því að ekki var flogið til baka vegna veðurs, svo við leigðum bílana áfram til aksturs heim til Egilsstaða og bættum hálfum sólarhring við ferðalagið. Þetta er nefnilega ekki bara spurning um peninga, tíminn sem í þetta fer er rosalegur, þó enginn sem þátt tekur sjái á eftir honum.

62,5 klukkustundir undir stýri

Miðað við 80 km meðalhraða, þá tók akstur þessara fimm þúsund og þriggja kílómetra 62,5 klukkustundir. Það eru tæpir átta heilir vinnudagar. Áætlaður beinn kostnaður við akstur er 150.240 krónur fyrir þessa kílómetra (skv. upplýsingum frá FÍB, kr. 30,03 pr/km*) og það voru aldrei færri en fimm bílar á hvern leik eða mót að undanskildri ferðinni á lokakeppnina, en þá var ákveðið að kaupa flugfar og greiða fyrir bílaleigubíla sem vissulega kom enn frekar við budduna hjá foreldrum.

Ósýnilegur kostnaður

Vegna þess að við erum að reyna að spara og gera sem mest sjálf þá hættir til að stór hluti kostnaðar verður ósýnilegri en ella. Þegar öflugur og viljugur foreldrahópur er að baki flokki eins og þeim sem ég hef verið í forsvari fyrir er auðvelt að kalla til viljugar hendur sem leggja til ómældan tíma og fyrirhöfn fyrir börnin sín og íþróttafélagið okkar. En þeirra framlagi má ekki gleyma og íþróttahreyfingin, KSÍ í þessu tilfelli, mætti gera miklu betur í að reyna að jafna aðstöðumun aðildarfélaga sinna þegar kemur að ferðakostnaði. Flestum þykir nefnilega nóg um æfingakostnaðinn.

Þakkir til fóboltaforeldra

Til fótboltaforeldra og annarra sem leggja ómælda vinnu og stuðning við íþrótta- og tómstundaiðkun barna ykkar langar mig að þakka ykkur fyrir óeigingjarnt og frábært starf. Ekki bara barna ykkar vegna, heldur allra hinna sem þurfa líka á ykkur og þátttöku ykkar að halda. Þið eruð frábær.

Unnar Erlingsson - fótboltaforeldri

* Kostnaður bifreiðar vegna notkunar án trygginga, skatta, skoðunargjalds, affalla og fjármagnskostnaðar, miðað við meðalbifreið og 15.000 km meðalakstur á ári skv. FÍB (https://www.fib.is/static/files/rekstrarkostnadur/rekbifjan2017.pdf)


sjá einnig hér (til öryggis ef skrá er fjarlægð af vef FÍB):

rekbifjan2017
.pdf
Download PDF • 34KB

56 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page