
Ég hef alltaf átt skelfilega erfitt með að muna nöfn. Þetta háði mér í námi og þetta hefur verið hamlandi á ýmsan hátt allt mitt líf. Oft staðið mig að því að heilsa ekki fólki vegna þess að ég man ekki nafn viðkomandi, upplifað óteljandi vandræðaleg augnablik, skammst mín margoft og án efa móðgað marga.
Ég þekki gríðarlega mikið af fólki, enda verið virkur í félagsstarfi, íþróttum, gengið í stóra skóla og um langt skeið vann ég á stórum vinnustað. Það hefur ekki verið til að minnka vandann.
Það var svo eitt sinn að ótti minn braust út með líkamlegu viðbragði. Ég hreinlega stökk til hliðar bakvið fatahengi í anddyri samkomustaðar þegar ég sá mann sem ég þekkti vel en mundi bara alls ekki nafnið á. Á kafi í yfirhöfnum gerðist eitthvað í höfðinu á mér, við þetta var ekki unað lengur, nú var að duga eða drepast. Tími til að stíga inn í óttann og komast að því hvað myndi gerast ef ég hreinlega viðurkenndi vandann og upplýsti um vanmátt minn. Það versta sem gæti gerst gat varla verið verra en þetta.
Ég heilsaði manninum, sem heilsaði mér til baka með nafni. Ég sagði honum eins og var að ég þyrfti hjálp til að muna nafn hans. Hann brosti og sagði mér það. Það var eins og minni mitt væri endurræst, auðvitað!
Ég er hættur að skammast mín og óttast viðbrögð þeirra sem ég spyr um nafn. Fólk verður að taka mér eins og ég er, með kostum mínum og göllum. Ég er frjáls.
Комментарии