Þegar ég var 27 ára varð ég fyrir djúpstæðri andlegri reynslu. Það var í bílnum mínum einn venjulegan mánudagsmorgun, á leið í vinnu, að hjarta mitt og hugur fylltist skyndilega þakklæti. Á einu augabragði flaug fyrir hugskotsjónir mínar allt það sem ég hafði til að vera þakklátur fyrir. Flest af því fremur hversdagslegt, sem ég hafði vissulega verið þakklátur fyrir fram að þessu, en þennan dag var það öðruvísi. Það risti dýpra, varð raunverulegra og skyndilega brast ég í grát. Í kjölfarið áttaði ég mig á því að með aldrinum hafði ég gert meira af því að líta á þessa hluti sem sjálfsagða og varið meiri tíma, orku og haft hugan meira við það sem mig langaði í. Það sem ég ætlaði mér að eignast, það sem ég ætlaði að verða, það sem mig langaði í en hafði ekki.
Á þessum degi, á hraðferð upp Ártúnsbrekkuna breyttist líf mitt. Ég hægði á. Næstu misseri fór ég að njóta meira og betur. Fannst eins og lífið fengi skýrari og fallegri liti, allt varð breytt. Ég átti nóg og þurfti ekki meira til að njóta lífsins og upplifa hamingju. Ekkert í hinu ytra hafði breyst, en fyrir eitthvert kraftaverk hafði hugarfar mitt gert það. Frá þessum degi hef ég lagt mig fram um að varðveita hugarfar mitt og minna mig reglulega á það sem ég er þakklátur fyrir. Það hefur reynst mín hamingjuleið.
Comments