Skilgreiningar eru oft á reiki varðandi hvað er gott og hvað er vont, ekki síður en persónulegar skoðanir á því eru ólíkar. Hvað er til dæmis vont veður? Ég vil meina að það fari meira eftir hugarfari en ástandi. Flestir vilja til dæmis meina að rigning og rok sé vont veður. Veðrið breytist ekki við það að búa sig og klæða vel en um leið er veðrið síður að halda aftur af okkur. Einhver sagði að það væri ekki til vont veður, aðeins fólk sem klæðir sig illa eftir aðstæðum. Mér finnst mikið til í því.
Þann pól má líka taka í hæðina þegar kemur að góðum og slæmum dögum. Það er alltaf hægt að taka eitthvað gott úr öllum kringumstæðum, þó það kunni að líta út fyrir að vera óskapar Pollíönnuleikur. Þegar við lítum til baka þá er ekkert svo með öllu vont að ekki boði eitthvað gott.
Slæmir dagar gefa okkur reynslu, mjög slæmir dagar geta veitt okkur mikilvægan lærdóm. Reynsla er nefnilega það sem maður fær þegar maður fær ekki það sem maður vill! Horfum á björtu hliðarnar, því góðu dagarnir færa okkur hamingju og góðar minningar.
Comments