Árangur fæst almennt ekki án áreynslu. Án vinnu, ástundunar og vilja. Þegar Tiger Woods var á hátindi ferils síns sem atvinnumaður í golfi, var sagt að hann tæki um eitt þúsund æfingahögg á hverjum degi. Þar lá megin ástæða þess að hann náði þeim árangri sem raunin varð. Auðvitað þarf meira að koma til, en án áreynslu og æfingar getur enginn vænst árangurs.
Viljum við uppskera eitthvað gott, kostar það alltaf vinnu og ástundun við gróðursetningu, aðhlynningu og uppskeru. Því meiri ávöxtunar sem við væntum, þeim mun meiri er vinnan.
Til eru þeir sem vilja stytta sér leið, eltast við að fá mikið fyrir litla fyrirhöfn. Það fer yfirleitt ekki vel. Randy Pausch, sá sem komst í heimspressuna árið 2008 fyrir síðasta fyrirlesturinn sinn (e. "The Last Lecture") hjá Carnegie Mellon háskólanum í Bandaríkjunum sagði að oftast væri stysta leiðin, lengri leiðin, sem í raun væri eitt orð: vinna.
Comments