Ég var minntur á það reglulega sem barn að ég þyrfti að þegja og hlusta. Það gekk hægt að læra að erfitt væri að gera bæði í einu. Ég held að ég hafi nú verið að mestu búinn að læra þetta við lok skólagöngu, en ég veit um marga sem eru enn að ströggla með þetta á fullorðinsaldri.
Kannski eru einhver skilaboð fólgin í því að við erum með tvö eyru en aðeins einn munn. Það ætti líka að liggja í augum uppi að símalandi um það sem við vitum og liggur okkur á hjarta er lítið svigrúm til að taka við nýrri vitneskju. Sá sem talar er að endurtaka það sem hann kann og getur lítið lært fyrr en hann þagnar og hlustar.
Leggjum okkur fram við að hlusta af athygli, þannig lærum við eitthvað nýtt á hverjum degi.
コメント