Ég spurði eitt sinn vin minn hversu langt væri síðan hann hefði brotið umferðalögin. Hann hugsaði sig um í dágóða stund og segir svo, "það er allavegana orðin tvö ár síðan ég var tekinn."
Ég átti einmitt von á þessu svari, þó það hafi alls ekki verið svarið við spurningunni.
Okkur finnst við sjaldnast vera að brjóta lögin fyrr en við erum tekin við verknaðinn. Og þá eru fyrstu viðbrögð gjarnan að bölva óheppninni eða löggunni sem augljóslega lá í leyni og gerir ekkert annað en að trufla góða og gegna borgara þegar þeir ættu klárlega að vera að nota tímann í að elta alvöru glæpamenn.
Kannast einhver við þetta?
Líklegt er að þú gerir það og vonandi sérðu það líka í eigin ranni. Gerum betur. Vöndum okkur að gera alltaf það sem er gott, satt og rétt. Það er einfaldlega best fyrir alla.
Comments