top of page

Blessaður, særður og hrærður


Mynd: KOX

Takk fyrir stuðninginn og kveðjurnar kæru vinir. Það hreinlega flæddi yfir mig skilaboðum í kjölfar þáttarins sem sýndur var á RÚV fyrir rúmri viku síðan. Þó ég hafi verið veikur undanfarna viku, þá held ég að mér hafi tekist að svara þeim öllum.


Margir hafa sagt að ég sé hugrakkur að koma fram. Hver vill í raun bera byrgði sína og bresti á borð, það krefst hugrekkis að berskjalda sig. En þannig leið mér ekki, það var ekkert mál að segja já við því að vera viðfangsefni í þessu verkefni og það gerði ég meðal annars í þeirri von að opna augu fólks fyrir stöðu annarra sem eru í svipuðum sporum. Eins og margir tóku eftir, þá var hins vegar ekki auðvelt að rifja upp og segja söguna okkar. Og þegar ég horfði á þáttinn sjálfur, þá upplifi ég hvað þetta tekur enn á, sem mér finnst í raun ótrúlegt svona mörgum árum eftir að þetta byrjaði allt saman.


Vinur minn orðaði þetta svona í skilaboðum til mín eftir þáttinn: "Ég vildi að sagan þín væri þér ekki svona sár enn þá, að þú yrðir frjáls og myndir ekki finna fyrir skömm. En þú ert á leiðinni, þú ert eins og tveir menn; sá sem veit að hann er blessaður og svo sá sem er enn særður. Og sá blessaði vill ekki skilja hinn eftir." Þetta þykir mér bæði djúpviturt og vænt um.


Ég er að ganga í gegnum sorgarferli, það er svo margt sem ég er enn að átta mig á að ég er og hef í raun verið að kveðja. Stór hluti af mér hefur þegar horfið og þó ég haldi í vonina um að það muni einhvern daginn birtast aftur, þá dvínar vonin eftir því sem árin líða. Það sama á við um Ölduna mína, aðlögun hennar hefur verið aðdáunarverð. Því miður komst það ekki vel að í þættinum. Smáfólkið þekkir mig ekki öðruvísi en ég er, en á sama tíma er ég stöðugt að takast á við það sem ég hefði getað verið þeim og gefið þeim sem ég get ekki.


Það er undarlegt að gera sér grein fyrir því að vera enn í þessari stöðu, þessari baráttu, svo mörgum árum eftir að veikindin byrjuðu. En það er nú samt staðan. Það tekur langan tíma að skilja stöðuna og kveðja. Mér líður svolítið eins og hugurinn hafi verið að skammta mér áfallið svo ég gefist ekki upp og látið mig venjast því hægt og bítandi að það hafa orðið grafalvarleg kaflaskipti í lífi fjölskyldunnar. En svo það sé sagt, þá vil ég ekki barma mér. Þekki reyndar engan sem vill gera það. Það eru ótal margir sem eru margfalt verr settir, þetta snýst ekki um stöðuna heldur vegferðina.


Ég veit að utan frá þá er lífið okkar glansmynd í flestum samanburði. Samt hefur allt þetta gengið á og þannig er það líka í næsta húsi og því þarnæsta. Veikindin og erfiðleikarnir sjást sjaldnast utan á fólki.

Þetta er erfitt og þó aðrir hafi það verr, þá er þetta ennþá erfitt. Við erum flest, líklega öll að glíma við eitthvað og það er ágætt að hafa það í huga. Temja sér samkennd og leggja sig fram að setja sig í spor þeirra sem eru á öðrum stað en við sjálf.


Hjálpumst að við að gera lífið ánægjulegt, fyrir alla.

 


Þáttinn (og aðra þætti í þáttaröðinni) má sjá á sarpi RÚV hérna*: Dagur í lífi - Unnar Erlingsson


*Þátturinn er ekki lengur aðgengilegur á vef RÚV en ég fékk leyfi framleiðenda að hafa hann aðgengilegan áfram hér á vefnum mínum.

254 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page