top of page

Flug eða bíll. Þetta er flókið samband.


Ég veit fyrir víst að ég er ekki einn um það að eiga í flóknu sambandi við flugfélagið okkar. Í hópnum "Dýrt innanlandsflug. Þín upplifun" á Facebook er ég í stórum hópi sem virðist takast á við það sama. Eiginlega brjálað yfir fargjaldafrumskóginum og afsláttarfyrirkomulaginu en um leið yfirmáta þakklátt fyrir að geta (í neyð) notað þjónustuna og vill auðvitað ekki fyrir nokkurn mun missa hana. Það er því mjög mikilvægt að fólk haldi áfram að fljúga en um leið er líklega eina leiðin til að fá fram einhverjar breytingar, að hætta að nota þessa ömurlegu þjónustu. Nei annars, þjónustan er frábær, það er verðið sem er ömurlegt. Já nema stundum, þegar ég er heppinn og er bara að ferðast einn, þá sleppur þetta, nema þegar ég er óheppinn, búinn að bóka á súper tilboði og þarf að breyta fluginu og fæ það þrefalt í hausinn. Já, það getur verið erfitt að lýsa þessu sambandi… "Well it's complicated".

Þó bílar séu margir vel hannaðir til langra ferðalaga koma þeir ekki í stað flugs.
Þó bílar séu margir vel hannaðir til langra ferðalaga koma þeir ekki í stað flugs.

Næstum í hvert skipti sem einhver kveinkar sér yfir flugfargjöldum innanlands í Facebook hópnum, er einhver velviljaður einstaklingur sem stingur upp á því að viðkomandi ætti bara að keyra. "Áttu ekki bíl? Ég keyri bara, það er ekkert mál." Áts. Þetta er auðvitað svarið við öllu væli vegna verðs á flugi. Já, ég þarf að horfast í augu við það að hafa val! Og svo er miklu ódýrara að keyra. Það eru nefnilega allir sem hafa tíma til að spara sér peninginn, eiga góðan bíl og þurfa ekki að hafa áhyggjur af veðri eða færð. Og auðvitað eiga allir einhvern samastað í höfuðborginni, þar er líka nóg af ódýrum íbúðum eða herbergjum til leigu (hóst). Enginn lætur sér detta í hug að fara þangað í dagsferð, augljóslega þegar það tekur tæpan sólarhring að komast til og frá staðnum um þjóðvegi landsins.


Ég hef líklega ekið 100 sinnum til Reykjavíkur frá Egilsstöðum. Það er ekkert mál, svona oftast. Þegar því er við komið. Ég á líka góða að, þekki fólk á flestum þéttbýliskjörnum á landinu sem hefur komið sér vel. Ég hef orðið veðurtepptur á Akureyri, Blönduós og Höfn á þessum ferðalögum mínum yfir vetrarmánuðina. Það eykur bara á fjölbreytni og býr til skemmtileg ævintýri, sérstaklega fyrir börnin sem fá mögulega að gista í ókunnum húsum og draugalegum hótelum (á veturna eru nefnilega enn galtóm hótel úti á landi yfir vetrarmánuðina). Reyndar ekki þau ævintýri sem ég hafði í huga og hefði viljað vera án þá stundina en við erum bara þannig gerð almennt að við gerum gott úr því sem við höfum. Þegar við höfum ekki efni á að fljúga, þá ferðumst við öðruvísi. Ef við getum ekki ekið, þá gerum við bara ráðstafanir til að gera það seinna, eða sleppum því alveg.


En fyrir mér er flug til höfuðborgarinnar aðeins meira en eitthvað sem mig langar að gera. Það er ekki það sama og þegar ég bjó í Reykjavík og var að velta fyrir mér hvort ég ætti að skella mér á leik í enska boltanum, heimsækja frænku í Kaupmannahöfn eða jafnvel í verslunarleiðangur til Minneapolis. Það er nefnilega allt lúxus. Ég á hins vegar ýmislegt að sækja til Reykjavíkur sem ég á talsvert tilkall til. Ég bjó þar í 25 ár, á þar fjölskyldu og hef tekið þátt í að byggja þar upp ýmislegt sem ég, þegn þessa lands á rétt til að sækja. Fyrst ber þar líklega að nefna heilbrigðisþjónustuna, hana hef ég takmarkaða á Egilsstöðum og hún getur orðið mér lífsnauðsynleg. Þar er líka Háskóli Íslands, Þjóðleikhúsið, Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafnið, Þjóðarleikvangurinn og auðvitað Alþingi Íslendinga ásamt næstum allri stjórnsýslu landsins. Þetta er auðvitað langt í frá tæmandi listi en vonandi nóg til að mála myndina nógu þjóðlegum lit. Við eigum þetta saman.


Í höfuðborginni eru flest sem við þurfum að hafa greiðan aðgang að. Og ég lít svo á að það sé hlutverk hin opinbera að jafna eins og kostur er aðgang að höfuðborginni okkar, óháð búsetu. Mér finnst liggja í augum uppi að það þurfi að laga aðgengi að innanlandsfluginu. Ég er allavegana alveg til í að bæta þetta flókna samband mitt við Flugfélagið.


Unnar Erlingsson

Austfirðingur.


(Birt á Facebook 22.08.2017)


16 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page