top of page

Er allt fljúgandi vitlaust hérna?

Á undanförnum árum hef ég setið nokkra fundi varðandi innanlandsflug. Málið er mér hugleikið þar sem ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að flytja á milli landshorna fyrir rúmum áratug, frá stærstum hluta fjölskyldunnar og á vit ævintýranna í hreindýralandinu. Fyrstu árin, á meðan ævintýraljóminn var með sterkara móti, var ég og reyndar við fjölskyldan, sem þá taldi okkur hjónin ásamt einum snáða, dugleg að nýta okkur þjónustu Flugfélagsins. Enda er tiltölulega stutt á milli landshluta með þeim ferðahætti. Það tók innan við tvær klukkustundir að skreppa í heimsókn til ömmu og afa í Kópavoginn eða annarra vina og vandamanna á höfuðborgarsvæðinu. Það var heildartími, með bílferðum til og frá flugvelli og biðtíma við innritun.

Það hefur orðið erfiðara með tímanum að nýta sér þjónustu flugfélagsins.
Það hefur orðið erfiðara með tímanum að nýta sér þjónustu flugfélagsins.

Eftir því sem árin liðu og fjölskyldan stækkaði fór að verða erfiðara að nýta sér þessa frábæru þjónustu flugfélagsins. Jafnt og þétt hefur þó stundunum fjölgað sem varið hefur verið við vef þess, jafnvel þrátt fyrir að skemmtana- og afþreyingargildi hans sé minna en ekkert. Jæja, það er reyndar eftir því hvernig á það er litið, því manni líður oft eins og unnið hafi vinning í happdrætti þegar maður dettur niður á flugmiða á góðu verði. En þrátt fyrir stöku sælustundir yfir Flugfélagsvefnum, þá hefur niðurstaðan oftar en ekki orðið langt ferðalag á fjölskyldubifreiðinni sem telur um 8 klukkustundir í aksturstíma og heildar ferðatíma á bilinu 10-12 stundir eftir færð og veðri auk stöðu og ástands yngstu fjölskyldumeðlimanna. Í raun kostar sá ferðamáti heilan dag svo maður sé bara sanngjarn, tvo sé ferðast fram og til baka sem útilokar eiginlega alveg helgarheimsóknir nema til komi vinnutap ofan á allt saman. En hey, hvað gerir maður ekki til að spara sér nokkrar krónur sem maður á ekki til?


Þrátt fyrir að skilja bara alls ekki hvernig hægt er að hafa flug til næstum allra áfangastaða í heiminum ódýrara en innanlandsflug milli Reykjavíkur og Egilsstaða, þá langar mig að láta Flugfélagið njóta alls vafa á verðlagningunni. Enda á ég langt í land með að setja mig inn í allar rekstrarforsendur flugfélags og mun líklega seint gera. Eins hefur frábær framkvæmdarstjóri félagsins verið duglegur á öllum fundum sem ég hef setið með honum, fullyrt í löngu máli og stuttu að rekstrarafgangur félagsins gæti aldrei komið til móts við óskir fólks um tug prósenta lækkun á fargjöldum. Ég er farinn að trúa honum. Það þarf einfaldlega fleira að koma til.


Og það er ekki til þess að ég geti komist ódýrar eða oftar í heimsókn til ömmu og afa. Það er heldur ekki til þess að þau sjái sér einhvern tíma fært að koma til mín. Heldur er það einfaldlega réttlætismál að ég hafi gott aðgengi að þeirri þjónustu sem ég hef, ásamt öllum öðrum sem á þessu landi búa, byggt upp í höfuðborg landsins. Að eitthvað af þeim sparnaði, þeirri hagræðingu sem unnin hefur verið með því að setja stærstan hluta allrar opinberrar þjónustu og afþreyingar á einn og sama blettinn sé með einhverjum hætti settur í það að jafna aðgengi að henni.


Séum við ein þjóð í einu landi er einfaldlega ekki rétt, né réttlátt að það kosti tugi þúsunda og tugi klukkustunda að komast í nauðsynlega og sjálfsagða þjónustu sem við öll eigum og höfum byggt upp saman.


Unnar Erlingsson

Austfirðingur


359 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page