top of page

Dýrt innanlandsflug - höfuðborg okkar allra


Ég er reglulegur notandi innanlandsflugs. Búsettur á Egilsstöðum, með nokkur vinnutengd verkefni í Reykjavík og fjölskyldu á stór-Reykjavíkur svæðinu. Eftir því sem árin líða og fjölskyldan stækkar hefur hins vegar skiptunum ekki aðeins fækkað sem við fölskyldan nýtum þjónustu Flugfélagsins, því hefur einfaldlega verið hætt nema brýna nauðsyn beri til. Verðið er að mínu viti komið langt út fyrir öll velsæmismörk fyrir það sem ætti að vera almennur samgöngumáti. Þetta er orðinn helber lúxus sem fáir veita sér nema ef einhver annar er tilbúinn að borga, oftast atvinnurekandi eða sjúkratryggingar.

Innanlandsflug á að vera hluti almenningssamgangna landsins og verðlagið það sama. Allir eiga að geta nýtt sér almenningssamgöngur.
Innanlandsflug á að vera hluti almenningssamgangna landsins og verðlagið það sama. Allir eiga að geta nýtt sér almenningssamgöngur.

Mér þykir það líka sláandi staðreynd að fjölskyldan mín hefur aldrei komið með flugi til að heimsækja okkur þau 11 ár sem við höfum búið hér eystra. Hafa frekar valið að sitja í bíl í 18 klukkutíma eða svo og aka um 40 einbreiðar brýr og eina ómalbikaða vegarkafla þjóðvegarins á leiðinni. Hin hliðin á þeirri staðreynd, og það sem flestum þykir eðlileg skýring, er að þau vilja frekar fljúga eitthvað út í heim fyrir sama pening. Jafnvel dvelja á Spáni í vikutíma á hóteli með flugi fyrir sömu upphæð. Það er eitthvað mjög bogið við þetta.


Stærsti atvinnurekandi Austurlands, Alcoa Fjarðaál niðurgreiðir innanlandsflug fyrir starfsmenn sína um tugi milljóna á ári. Ástæðan er helst að sporna við starfsmannaveltu, gera fólki auðveldara að halda tengslum við fjölskyldur sínar sem búa á höfuðborgarsvæðinu og sækja þangað nauðsynlega þjónustu. Fleiri fyrirtæki hafa fylgt í kjölfarið. Sem atvinnurekandi hef ég líka fundið fyrir því hvað getur verið mikil áskorun að fá fólk til vinnu hér á Austurlandi. Fjarlægðin er nefnilega ekki bara um 1300 kílómetrar, heldur miklu frekar þær 50 þúsund krónur sem það kostar einstakling, eða um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu, að skreppa til Reykjavíkur. Nú eða tveir vinnudagar í akstri sem bætast við eldsneytis og rekstrarkostnað bifreiðar.


„Flugið á ekki að vera lúxusvandamál þegar það snýst um almenningssamgöngur,“ sagði Janne Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Alcoa Fjarðaáls á opnum fundi um flugfargjöld á Egilsstöðum fyrir nokkru. „Að fljúga á ekki að vera lúxus þegar maður býr í stóru landi með fáa íbúa þar sem þjónustan er ekki sú sama á milli svæða.“


Allir landsmenn eiga sjálfsagðan rétt á þeirri þjónustu sem við höfum öll byggt upp í höfuðborg landsins. Þá hlýtur það líka að vera hlutverk ríkisins að jafna eins og kostur er aðgang að henni. Og það er ágætt að halda því til haga að við erum ekki bara að tala um Landsspítalann, í Reykjavík eigum við líka Þjóðleikhús, Hörpu, Sinfóníuhljómsveit, Þjóðminjasafn, framhaldsskóla og háskóla svo eitthvað sé nefnt, svo ekki sé talað um alla stjórnsýslu landsins. Ég verð eiginlega líka að nefna Keflavíkurflugvöll, því nú þegar milljarða tugum er varið í uppbyggingu hans og flugleiðum til allra heimshorna fjölgar með auknum ferðamannastraum á verðum sem gera það mjög eftirsóknarvert að fljúga erlendis er það hrein svívirða að þurfa kannski að borga helmingi meira fyrir flug til Reykjavíkur en til annarra landa.


Gerum höfuðborgina okkar allra og aðgengi að henni eins og best er kostur fyrir okkur öll.


-Unnar Erlingsson

Austfirðingur


(Grein birtist á vef Austurfréttar 13.10.2016)

73 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page