top of page

Besta jólakaka í heimi


Öll eigum við okkur uppáhalds. Uppáhalds lit, tölu, mat, dag og hvaðeina. Flestir halda upp á jólin.

Besta piparkökuhús í heimi.
Besta piparkökuhús í heimi.

Ég fór að velta fyrir mér, nú í upphafi aðventu, þegar ég rekst á hverja uppskriftina á fætur annarri á ferð minni um samfélagsmiðlana, sem er best. Bestu smákökurnar, besta piparkökuuppskriftin, besta súkkulaðikakan. Það er augljóslega eitthvað bogið við þetta, geta virkilega svona margar kökuuppskriftir verið bestar? Augljósa svarið er að þetta er sú besta fyrir þann sem skrifar, uppáhaldið. Liggur í augum uppi að ef ég fíla ekki engifer, þá verða piparkökur (sem með réttu ættu að heita engiferkökur en það er önnur umræða) aldrei góðar, hvað þá bestar.


Annað sem ég hef tekið eftir er að margar þessara uppskrifta eiga sameiginlegt að þar er vísað í æskuna, eitthvað sem mamma eða amma bakaði alltaf. Í sumum tilfellum er það minningin um samverustundirnar, við bakstur eða skreytingar á kökunum. Þá voru hlutirnir líka gjarnan einfaldari, færri innihaldsefni. Eins og minningin og einfaldleikinn hafi áhrif á bragðið.


Hughrif hafa áhrif á alla skynjun. Bragð er ekki bara bragð, heldur hvaða tilfinningu það skilur eftir sig. Áferð þess sem borðað er, hvernig það lítur út, í hvernig umbúðum það er, hvar það er borðað, við hvaða aðstæður og síðast og kannski helst, hver bakar. Því það mikilvægasta af öllu er líklega hvers vegna.


Já, hvers vegna? Því þar er innihaldsefnið sem enginn getur mælt, en flestir finna fyrir. Kærleikurinn.


Það skiptir nefnilega ekki alltaf máli úr hverju kakan er gerð, hverrar gerðar hún er eða hvernig hún er bökuð, heldur er það sem öllu máli skiptir hvers vegna einhver lagði sig fram við að blanda saman þurrefnunum, hræra í skál, setja í form og baka í ofni, skreyta og færa fallega á borð. Hún var nefnilega bökuð fyrir þig, til þess eins að gleðja þig og sýna um leið að þú skiptir máli, að þú ert elskuð.


Hvaða kökuuppskrift þú sem ákveður að baka fyrir jólin, mundu bara að einfalt er best og að það mikilvægasta af öllu er hvers vegna.


161 views0 comments

Recent Posts

See All

Opmerkingen


bottom of page