top of page

Ég ætla ekki að gefast upp

Það er dýrmætt að eiga einhvern að sem stendur á hliðarlínunni og hvetur okkur áfram.
Það er dýrmætt að eiga einhvern að sem stendur á hliðarlínunni og hvetur okkur áfram.

Öll þurfum við leiðsögn og hjálp. Það er rauður þráður í þroskaferli hvers og eins okkar. Við lærum af þeim sem í kringum okkur eru og fjöldinn allur af fólki er boðið og búið að kenna okkur, leiðbeina, styðja og hjálpa. Vissulega erum við mis móttækileg fyrir öllu þessu. Mörg okkar vilja helst fara eigin leiðir, tökum illa leiðsögn og finnst reglur helst vera fyrir einhverja aðra. Meira að segja leggj


um við okkur stundum fram að reyna að brjóta eða í það minnsta beygja náttúrulögmálin, aldrei með góðum árangri. Oftast lagast þetta með aldrinum…

En hvar sem þú ert á þessu litrófi þroskans og hvaða vegferð þú ert á í gegnum lífið, þá er þetta eitthvað sem ég er viss um að við getum verið sammála um; ef leiðbeiningar eru mikilvægar þá er hvatning ekki síður mikilvæg.


Leiðbeiningar eru nefnilega þess eðlis að þær þurfum við aðeins að meðtaka einu sinni. Eftir eðli málsins þarf svo stöðuga, eða í það minnsta reglulega hvatningu svo okkur takist að ná markmiðum okkar. Einföldum, háleitum, litlum og stórum. Því erfiðara sem viðfangsefnið er, þarf meiri hvatningu. Einhver sem stendur á hliðarlínunni og hvetur okkur áfram. Minnir okkur á mikilvægi þess að gefast ekki upp.


Hvatning í veikindum.

Ég byrjaði að skrifa þessar hvatningar undir myllumerkinu #ekkigefastupp og setja á samfélagsmiðla um mitt ár 2016. Þá hafði ég í rúmt ár glímt við erfið veikindi sem engin skýring fannst á. Ég upplifði mig í algeru myrkri. Það var engin meðferð, engin lyf. Engin svör um hvort ég myndi ná mér, hversu mikið eða hvenær. Í slíkum aðstæðum lærir maður að meta þá sem stappa í mann stálinu, sýna hluttekningu og hvetja áfram. Að gefast ekki upp þó útlitið sé ekki sem best.


Samheldni, samvinna og hvatning er mikilvæg víða í lífinu.
Samheldni, samvinna og hvatning er mikilvæg víða í lífinu.

Nokkur undanfarin ár hef ég fylgst með og tekið þátt af hliðarlínunni í knattspyrnuþjálfun yngri flokka á Egilsstöðum. Á sama tíma, frá árinu 2007 til dagsins í dag hef líka verið að vinna með frumkvöðlum á Héraði. Fólki sem er að gera eitthvað nýtt og skapandi. Ég þarf líklega ekki að fjölyrða um mikilvægi hvatningar fyrir báða þessa hópa og mér hefur oft fundist það falla í minn hlut að vera sá sem stendur á hliðarlínunni og með einum eða öðrum hætti hrópar, eða hvíslar eftir atvikum: “Ekki gefast upp!” það er nefnilega mín upplifun og mín reynsla að við erum nær markinu en við gerum okkur grein fyrir og það er ömurlegt að vita að við gefumst svo oft upp áður og án þess að ná settu marki. Besta leiðin til að ná árangri, er að reyna einu sinni enn.


Veikindin eru minn veruleiki enn í dag en ég er viss um að ég muni vinna mig í gegnum það með góðri hjálp, leiðsögn og ekki síst hvatningu þeirra sem í kringum mig eru. Með hjálp og leiðsögn fagfólks og hvatningu þeirra sem næst mér standa. Líklega munum við aldrei meta mikilvægi þeirra meira en við svona kringumstæður og líklega verður okkur aldrei betur ljóst hversu blessuð við erum að eiga góða að.

Ég ætla ekki að gefast upp!


Um hugleiðingarnar.

Einhver þessara hvatningarorða kunna að hljóma kunnuglega. Ég eigna mér engin þeirra því sambærilegar hvatningar, kannski öðruvísi orðaðar er örugglega hægt að finna víða. En hugleiðingarnar sem fylgja komu beint frá hjartanu þegar hvatningarorðin voru skrifuð. Tilgangurinn er aðeins að hvetja fólk og uppörva. Ég treysti því og vona að þú njótir ekki aðeins þeirrar hvatningar sjálfur heldur látir hana ganga og deilir með fleirumi sem á þurfa að halda, í orði og verki.


- Unnar

80 views0 comments

コメント


bottom of page